fös 01.ágú 2025 10:00 Mynd: EPA |
|

Spáin fyrir enska: 13. sæti
Það styttist heldur betur í það að þjóðaríþrótt Íslendinga, enska úrvalsdeildin, fari aftur af stað. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.
Næst er það Fulham sem er spáð þrettánda sætinu fyrir tímabilið sem er framundan.
Antonee Robinson er einn besti vinstri bakvörður ensku úrvalsdeildarinnar, ef ekki bara sá besti.
Mynd/EPA
Benjamin Lecomte er eini leikmaðurinn sem hefur komið til Fulham í sumar, hann er varamarkvörður frá Frakklandi.
Mynd/Fulham
Reiss Nelson lék með Fulham á láni á síðasta tímabili. Rætt hefur verið um að hann komi aftur.
Mynd/EPA
Ein áhugaverðasta fréttin í sumar er að miðjumaðurinn ungi Josh King hefur skrifað undir fjögurra ára samning við félagið. Stuðningsmenn vona að hann geti orðið fastamaður í liðinu, en hann er afar spennandi; hefur til að mynda spilað fyrir flest yngri landslið Englands. Á sama tíma eru Fulham að reyna að bæta við meiri sóknarþunga. Þeir hafa sýnt áhuga á að kaupa nígeríska framherjann Tolu Arokodare, sem var markahæstur í belgísku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Rodrigo Muniz og Raúl Jiménez verða þá áfram mikilvægir leikmenn, en Fulham veit að liðið þarf fleiri mörk til að komast í efri hluta töflunnar. Þeir hafa einnig haft auga á miðjumönnum eins og Kiernan Dewsbury-Hall, til að bæta sköpunargáfu og kraft á miðjunni.
Tímabilið byrjar með útileik gegn Brighton 16. ágúst, og síðan taka við stórleikir gegn Manchester United heima og Chelsea úti í sama mánuði. Þessir fyrstu leikir verða mikil prófraun fyrir liðið og sýna hversu vel undirbúið það er til að taka skref fram á við. Þó Fulham sé ekki talið líklegt til að falla, þá þurfa þeir samt að passa sig að sogast ekki niður. En ef þeir halda vörninni sterkri, bæta við fleiri mörkum og halda lykilmönnum heilum, þá ættu þeir að geta náð öðru góðu tímabili undir stjórn hins trausta Marco Silva.
Stjórinn: Eins og áður kemur fram er Marco Silva áfram við stjórnvölinn há Fulham þar sem hann virðist vera búinn að finna sterkt heimili fyrir sjálfan sig. Hann er núna sá stjóri í ensku úrvalsdeildinni sem hefur verið lengst hjá sama liðinu fyrir utan Pep Guardiola og Mikel Arteta, en hann hefur stýrt Fulham í rúm fjögur ár með góðum árangri. Hann hefur hafnað stórum tilboðum frá Sádi-Arabíu og virðist líða mjög vel í London. Marco Silva hefur fært sig í sessi sem einn virtasti stjóri ensku úrvalsdeildarinnar á tíma sínum hjá Fulham en hann hefur komið inn með stöðugleika á metnað í félagið. Hann kom liðinu upp úr Championship og hefur fest það í sessi á góðum stað í ensku úrvalsdeildinni. Silva er þekktur fyrir sveigjanlega taktík þar sem hann nær að blanda saman sóknarleik og skipulagðri vörn, og aðlagar leikkerfi sitt oft eftir mótherjum. Hann hefur þróað leikmenn áfram, gefið ungum leikmönnum tækifæri og skapað jafnvægi á milli reynslu og yngri leikmanna. Róleg framkoma hans, skýr leikstefna og hæfileiki til að þróa leikmenn áfram gera hann að lykilmanneskju í framþróun Fulham.
Leikmannaglugginn: Það eina sem Fulham hefur fengið inn til þessa er einn varamarkvörður en á sama tíma hefur liðið ekki misst mikið. Það má alveg búast við því að komi inn sóknarmaður áður en glugginn lokar og það er lykilatriði að halda í Rodrigo Muniz sem er undir smásjá Newcastle.
???? Newcastle United have made an informal enquiry for Fulham’s Rodrigo Muniz.
— Transfer News Live (@DeadlineDayLive) July 30, 2025
A fee of £40M has been mooted.
(Source: @CraigHope_DM) pic.twitter.com/uPJXaJK0dN
Komnir:
Benjamin Lecomte frá Montpellier - 430 þúsund pund
Farnir:
Carlos Vinícius til Gremio - Á frjálsri sölu
Willian - Samningur rann út
Reiss Nelson til Arsenal - Var á láni
Líklegt byrjunarlið

Þrír lykilmenn:
Antonee Robinson er einn besti vinstri bakvörður ensku úrvalsdeildarinnar en hann hefur unnið sér inn þann stimpil síðustu árin. Hann var með tíu stoðsendingar á síðasta tímabili sem var meira en aðrir varnarmenn í deildinni. Hann er frábær sóknarlega en ekki verri varnarlega. Önnur félög hafa sýnt honum áhuga en hann er áfram leikmaður Fulham og það er frábært fyrir félagið.
Emile Smith Rowe var keyptur frá Arsenal í fyrra fyrir metfé og varð fljótt afar mikilvægur í sóknarleik Fulham. Hann er gríðarlega skapandi, með mikla tækni og hefur eiginleikann að brjóta upp leiki. Ef hann helst heill þá getur hann skilað tíu stoðsendingu og nokkrum mörkum ofan á það.
Rodrigo Muniz er sóknarmaður sem Newcastle horfir núna til eftir að ljós kom að Alexander Isak vill fara til Liverpool. Muniz er með mikinn hraða, góðar hreyfingar og er öflugur í að klára færin sín. Þessi 24 ára gamli Brasilíumaður gekk í raðir Fulham sumarið 2021 og hefur þróast mikið síðan þá. Hann hefur skorað 17 mörk í 57 leikjum í ensku úrvalsdeildinni til þessa og mörkin verða eflaust fleiri á komandi leiktíð.
Fylgist með: Eins og áður segir er Josh King (ekki rugla honum saman við fyrrum framherja Bournemouth) leikmaður til að fylgjast með. Hann er 18 ára gamall miðjumaður sem skrifaði undir langtímasamning við Fulham í sumar og gæti fengið stærra hlutverk á komandi tímabili eftir að hafa spilað átta leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. King hefur spilað fyrir flest yngri landslið Englands og er framtíðarleikmaður fyrir Fulham og, ef allt gengur upp, enska landsliðið. Hann var hluti af U19 landsliði Englands á Evrópumótinu í sumar og skoraði þar meðal annars í 5-5 jafntefli við Þýskaland. Svo eru leikmenn fram á við í liði Fulham sem er alltaf gaman að fylgjast með og má þar helst nefna Adama Traore, Andreas Pereira og Emile Smith Rowe.
I’m not a Fulham fan but Josh King is generational. That word gets thrown around but he really is.
— Mark (@SFCMW_) August 30, 2024
He’s way too good for u21 football at 17 years of age. Will get integrated into the first team fold more soon. Lad is special. The football world will soon know. Star-boy. #FFC pic.twitter.com/jG5nrbF0uP
Besta og versta mögulega niðurstaða: Besta niðurstaðan er sú að Fulham taki skref fram á við í vetur og lendi í topp tíu, og jafnvel topp átta. Versta mögulega niðurstaðan er að það komi engir nýir leikmenn inn, það gangi ekkert á markaðnum, og að liðið lendi í fallbaráttu. Það er þó erfitt að sjá það að Fulham falli eftir góð tímabil að undanförnu.
Þau sem spáðu: Anton Freyr Jónsson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Ívan Guðjón Baldursson, Kári Snorrason, Mate Dalmay, Snæbjört Pálsdóttir, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. Fulham, 93 stig
14. West Ham, 92 stig
15. Bournemouth, 85 stig
16. Brentford, 79 stig
17. Leeds, 53 stig
18. Wolves, 50 stig
19. Sunderland, 33 stig
20. Burnley, 22 stig