Tottenham í bílstjórasætinu um Akanji - Chelsea undirbýr tilboð - Verður Rogers arftaki Elliott hjá Liverpool?
   sun 31. ágúst 2025 15:01
Brynjar Ingi Erluson
England: Brighton kom til baka gegn Man City og vann - Frábær endurkoma Summerville
Man City tapaði öðrum leiknum í röð
Man City tapaði öðrum leiknum í röð
Mynd: EPA
Brajan Gruda var hetja Brighton
Brajan Gruda var hetja Brighton
Mynd: Brighton
Crysenscio Summerville átti stórkostlega endurkomu aftur á völlinn
Crysenscio Summerville átti stórkostlega endurkomu aftur á völlinn
Mynd: EPA
Brighton vann magnaðan 2-1 sigur á Manchester City í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á AMEX-leikvanginum í dag. West Ham náði þá í fyrsta sigur sinn með því að skora þrjú mörk á lokamínútunum gegn Nottingham Forest á City Ground.

Norski sóknarmaðurinn Erling Braut Haaland skoraði þriðja mark sitt á tímabilinu er hann kom Man City í forystu á 34. mínútu með skoti af stuttu færi eftir lúmska stungusendingu Oumar Marmoush inn á teiginn.

Haaland hafði átt tvær mjög góðar tilraunir áður en hann skoraði markið og virkaði líflegur í sóknarleiknum,

Oscar Bobb, landi Haaland, komst nálægt því að bæta við öðru marki þegar hálftími var eftir en fór illa að ráði sínu og var City-mönnum refsað fyrir það nokkrum mínútum síðar.

Matheus Nunes handlék boltann í teignum eftir aukaspyrnu Brighton-manna og var það Milner sem steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi gegn sínu gamla félagi.

Hann fagnaði að hætti Diogo Jota, fyrrum liðsfélaga hans hjá Liverpool, sem lést langt fyrir aldur fram í hræðilegu bílslysi á Spáni í síðasta mánuði..

Brighton-liðið fékk þokkalegan meðbyr eftir markið. Yankuba Minteh átti tilraun sem fór rétt framhjá markinu og þá átti Brajan Gruda hörkuskot sem James Trafford varði.

Heimamenn voru líklegri og nýttu sér það. Gruda slapp í gegn á 88. mínútu, fór framhjá Trafford og lagði boltann í netið. Frábært mark hjá Gruda og lagleg sending frá Kaoru Mitoma.

Tijjani Reijnders gerði sig líklegastan til að ná í stig fyrir Man City í uppbótartíma. Hann átti skalla rétt yfir markið og síðan skot fyrir utan teig nokkrum mínútum síðar, en heppnin ekki með honum og var tap Man City niðurstaðan.

Lagleg endurkoma hjá Brighton sem var að ná í fyrsta sigurinn á tímabilinu og er nú með 4 stig, en Man City að tapa öðrum leiknum í röð og er áfram með 3 stig.

Varamaðurinn Summerville frábær í fyrsta sigri West Ham

Crysenscio Summerville var besti maður vallarins er West Ham United vann fyrsta leik sinn á tímabilinu með því að leggja Nottingham Forest að velli, 3-0, á City Ground-vellinum.

Forest var betri aðilinn framan af og líklegra til að skora á meðan West Ham var ekki að skapa sér mikið.

Það kom aðeins betri bragur á gestina í þeim síðari og sérstaklega eftir að Hollendingurinn Summerville kom inn af bekknum. Hann hafði verið að glíma við meiðsli síðan í apríl, en kom inn í hópinn fyrir þennan leik.

Hann kom inn af bekknum á 82. mínútu og lagði upp fyrir Jarrod Bowen aðeins tveimur mínútum síðar og fiskaði síðan vítaspyrnu sem Lucas Paqueta skoraði örugglega úr.

Frábær innkoma Summerville sem átti stóran þátt í að hjálpa West Ham að landa fyrstu stigum sínum á tímabilinu.

Undir lok leiks skoraði síðan Callum Wilson fyrsta mark sitt í West Ham treyjunni eftir undirbúning frá El Hadji Malick Diouf.

Svakalegar lokamínútur og flottur sigur hjá West Ham sem er komið á blað með þrjú stig en Forest með 4 stig.

Nott. Forest 0 - 3 West Ham
0-1 Jarrod Bowen ('84 )
0-2 Lucas Paqueta ('88 , víti)
0-3 Callum Wilson ('90 )

Brighton 2 - 1 Manchester City
0-1 Erling Haaland ('34 )
1-1 James Milner ('67 , víti)
2-1 Brajan Gruda ('89 )
Athugasemdir
banner