Þýska félagið Bayer Leverkusen er að ganga frá kaupum á miðjumanninum varnarsinnaða Ezequiel 'Equi' Fernández.
Leverkusen borgar 30 milljónir evra til að kaupa Fernández úr röðum Al-Qadsiya í Sádi-Arabíu. Arabíska félagið fær þar að auki 15% af hagnaði á næstu sölu leikmannsins.
Fernández er 23 ára gamall og var fenginn í arabísku deildina í fyrra, eftir að hafa alist upp hjá Boca Juniors.
Hann er með 11 leiki að baki fyrir U23 landslið Argentínu og er fenginn til að fylla í skarðið sem Granit Xhaka skilur eftir sig hjá Leverkusen.
Real Sociedad reyndi einnig að kaupa Fernández í sumar en náði ekki samkomulagi um kaupverð. Hann var hugsaður sem arftaki fyrir Martín Zubimendi þar.
Miðjumaðurinn er búinn að standast læknisskoðun hjá Leverkusen og verður kynntur til leiks í dag eða á morgun.
Fernández verður tólfti leikmaðurinn sem Leverkusen fær inn í sumar.
Þessi félagaskipti vekja athygli þar sem það gerist ekki oft að evrópsk félög kaupa leikmenn sem spila í Sádi-Arabíu.
Fernández er með fjögur ár eftir af samningi sínum við Al-Qadsiya og er lykilmaður á miðjunni.
Mateo Retegui, Nahitan Nández og Nacho Fernández eru meðal liðsfélaga hans hjá sádi-arabíska félaginu.
Athugasemdir