Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   mið 08. febrúar 2012 13:00
Sam Tillen
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Töfrar enska bikarsins
Sam Tillen
Sam Tillen
Jimmy Floyd Hasselbaink og Sol Campbell í bikarúrslitaleik Chelsea og Arsenal árið 2002.
Jimmy Floyd Hasselbaink og Sol Campbell í bikarúrslitaleik Chelsea og Arsenal árið 2002.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Brentford fagna marki gegn Sunderland í enska bikarnum árið 2006.
Leikmenn Brentford fagna marki gegn Sunderland í enska bikarnum árið 2006.
Mynd: Getty Images
DJ Campbell, núverandi leikmaður QPR, fagnar með stuðningsmönnum Brentford eftir sigur liðsins á Sunderland.
DJ Campbell, núverandi leikmaður QPR, fagnar með stuðningsmönnum Brentford eftir sigur liðsins á Sunderland.
Mynd: Getty Images
Hermann Hreiðarsson og Lloyd Owusu í bikarleik Charlton og Brentford árið 2006.
Hermann Hreiðarsson og Lloyd Owusu í bikarleik Charlton og Brentford árið 2006.
Mynd: Getty Images
Paolo Di Canio stjóri Swindon.
Paolo Di Canio stjóri Swindon.
Mynd: Getty Images
Enski bikarinn hefur bæði veitt manni óendanlega gleði og örvæntingu. Fyrir mig persónulega, sem stuðningsmann og leikmann, hefur bikarinn enn þann dag í dag ævintýralegan blæ sem elsta bikarkeppni heims. Í kjölfar síaukinna vinsælda Meistaradeildarinnar og þeirra peninga sem henna fylgja hefur vægi bikarsins því miður minnkað í augum sumra. Mikilvægi þess að enda í einu af fjórum efstu sætunum hefur bitnað á þessari frábæru hefð og þykir mér það miður. Ég get ekki ímyndað mér neinn leikmann, nema þá sem eru málaliðar sem eltast einungis við peninga, sem myndi frekar kjósa að enda í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar heldur en að spila á Wembley fyrir framan 90.000 manns. Þegar uppi er staðið, þá geturðu valið hvort þú sýnir barnabörnunum hvar þú endaðir í deildinni eða þú getur sýnt þeim gullmedalíu… Ég veit allavega hvaða arfleifð ég myndi velja, þó að ég verði reyndar aldrei í þeirri stöðu að gera ákveðið það.

Áður var enski bikarinn það augnablik sem margir kusu að styðja sitt lið, sérstaklega meðal kynslóðar föður míns. Á degi úrslitaleiksins var veisla allan daginn og var hann einn af fáum leikjum sem sýndur var í sjónvarpinu í beinni útsendingu. Faðir minn varð stuðningsmaður Chelsea þegar hann var átta ára gamall, þegar hann horfði á liðið með Peter Osgood í fararbroddi, vinna Leeds í endurteknum leik í úrslitunum 1970. Þegar ég var að alast upp horfði ég á allt saman; Þegar liðunum var fylgt inn á sitt hvort hótelið, þegar þau komu í gegnum hliðin á Wembley og þegar völlurinn var skoðaður rétt fyrir leik. Það var draumur minn að vera einn dag hluti af þessu.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera áhorfandi á bikarúrslitaleik í Cardiff þegar Chelsea tapaði 2-0 gegn Arsenal árið 2002. Það jafnast ekkert á við stemninguna á bikarúrslitaleikjum. Það er að duga eða drepast. Áhorfendapallarnir þétt setnir af jákvæðum stuðningsmönnum. Stuðningsmenn Chelsea sungu allan eftirmiðdaginn, þrátt fyrir tapið. Selleríi rigndi yfir mig, bróður minn og besta vin minn. Upphaf þeirrar hefðar í lögum er allt of dónaleg fyrir þessa síðu! Við ferðuðumst til Lundúna um morguninn í rútu með starfsfólki Chelsea. Við gengum um rauðar og bláar götur Cardiff, spiluðum fótbolta á bökkum Taff árnar í glampandi sólskini. Þrátt fyrir tapið var þetta mjög minnisstæður dagur og við tölum enn um hann.

Ég fór einnig á undanúrslitaleikinn 2000 á milli Chelsea og Newcastle. Það var ekkert betra en gamli góði Wembley völlurinn. Saga þessa staðar og öll árin sem ég hafði horft á bestu leikmennina spila þarna í sjónvarpinu á frábærum grænum velli. Það var ótrúlegt að vera þarna og bera þessa fegurð augum.

Sem leikmaður komst ég í fimmtu umferðina á fyrsta ári mínu hjá Brentford. Við spiluðum gegn Rochdale og Stockport á útivelli í fyrstu tveimur umferðunum og unnum Oldham svo í endurteknum leik á heimavellinum, Griffin Park, í beinni útsendingu á Sky. Það er töfrum líkast, bæði sem leikmaður og stuðningsmaður, að fylgjst með drættinum og bíða spenntur eftir því hvaða liði þú mætir næst. Við drógumst gegn Sunderland á heimavelli. Við vorum á toppi C-deildarinnar og þeir voru í basli í úrvalsdeildinni. Allir töluðu um að þetta væri tækifæri til að fella risann, það er það sem bikarinn snýst um!

Spennan þessa vikuna var engu lík. Á fimmtudag vissi ég nokkurn veginn að ég væri í liðinu, við vorum búnir að vinna að leikáætlun til að komast bakvið Gary Breen og fylgja Julio Arca í hvert fótmál. Ég fékk það hlutverk að festa mig við hann. Föstudaginn fyrir leikinn var þáverandi stjóri okkar, Martin Allen, með ákveðna hefð. Fyrir æfingu fór búningastjórinn á kaffihúsið í hverfinu og keypti mikið úrval af heitum samlokum. Bjúgu og egg, bjúgu, beikon og egg, beikon (mitt uppáhald) sem við gæddum okkur á með dásamlegum tebolla. Hann gerði þetta fyrir hvern einasta bikarleik og sagðist “elska þessa hefð því FA bikarinn væri sérstakt tilefni.” Hann gerði líka frábær myndbönd til að “mótivera” okkur. Áður en við fórum upp í liðsrútuna fyrir leiki spilaði stjórinn stutt myndbönd sem hann hafði búið til, þar sem hundurinn hans Monty kom alltaf við sögu. Þessi undarlegu myndbönd, sem voru tekin upp á skrifstofunni hans á æfingasvæðinu, sýndu hann segja setningu og anda svo inn og út eins og maraþonhlaupari. Svo talaði hann einnig við hundinn sinn og lét hann gelta í myndavélina. Þetta var að hluta til uppörvandi en fyrst og fremst snargeðveikt.

Það frábæra við bikarinn er að hann er ekki bara fyrir bestu liðin sem komast í úrslitin, heldur er hann fyrir alla. Undankeppnin byrjar í ágúst fyrir lið í allra neðstu deildunum. Ef þeir komast í gegnum fjóra leiki geta þau komið inn í fyrstu alvöru umferðina, þar sem liðin í C- og D-deildinni byrja að spila. Þar byrjar draumurinn… leikmenn sem munu aldrei fá tækifæri til að spila í bestu deildunum fá tækifæri til að vera hetjur í einn dag, upplifa að spila fyri rframn marga áhorfendur í rafmögnuðu andrúmslofti. Ef þú styður lið á borð við Brentford, sem er alltaf í C- eða D-deildinni, þá eru þetta stærstu dagar ársins. Eini dagurinn sem liðið þitt mætir úrvalsdeildarliði. Það skiptir ekki máli hvernig liðinu hefur gengið fyrir leikinn, það getur allt gerst í bikarnum og allir geta valdið usla. Það er okkur Bretum í blóð borið, við gefumst aldrei upp fyrr en í fulla hnefana eins og saga okkar sýnir.

Griffin Park var troðfullur með 12.500 áhorfendur. Umhverfis völlinn eru hús alveg upp við hann eins og á flestum gömlum völlum. Áhorfendurnir mættu með blóðbragð í munninum og eitt sem Martin Allen var frábær í, var að fá mann til að upplifa að maður væri ósnertanlegur þegar maður kom inn á völlinn. Ég hafði aldrei séð leikvanginn líkan þessu áður. Stuðningsmennirnir sungu allan tímann og fögnuðu hverri tæklingu.. því grimmari sem þær voru, því betra. Þegar við skoruðum mörkin okkar tvö sprakk leikvangurinn næstum í loft upp. Við unnum 2-1 sigur á Sunderland og eftir leikinn ruddust áhorfendur inn á völlinn og báru okkur leikmennina uppi. Það var ótrúlegt. Ég hélt að þetta yrði fyrsti af mörgum frábærum bikarsigrum fyrir mig en þetta reyndist vera sá eini. Maður verður að njóta augnabliksins, því eins og ég lærði, þá endist það ekki alltaf að eilífu.

Við fengum útileik gegn úrvalsdeildarliði Charlton í næstu umferð. Brentford var með happadrætti þar sem stuðningsmenn gátu keypt miða og hitt liðið á föstudegi. Sigurvegarinn myndi fara í gegnum allan undirbúning fyrir leikinn með okkur. Sú manneskja kom með okkur í beikonsamlokurnar, hann horfði á okkur á æfingum og ferðaðist svo með okkur um endilanga Lundúni til að finna hótelið okkar. Við lögðum fyrir utan byggingu sem ég hefði ekkert verið sérstaklega sáttur með ef ég hefði bókað hana. Nokkrir reyndari leikmannanna í aftursætum strætisvagnsins kveinkuðu sér..”Af hverju þurfum við að vera hér? Það hlýtur að vera betri staður í Lundúnum heldur en þetta?” Martin Allen sagði aðstoðarmanni sínum að fara og skrá okkur inn áður en hann gekk til leikmannanna sem höfðu verið að kvarta. “Þetta er hótelið okkar strákar, þið vitið að félagið á í smá fjárhagserfiðleikum, en það er betra inni.”

Þegar við vorum við það að standa upp og fara úr rútunni sagði hann svo: “Haldið þið í alvöru að ég myndi láta ykkur gista hérna, fíflin ykkar? Þið eruð alvöru leikmenn! Bílstjóri, af stað!”

Við enduðum á fimm stjörnu hóteli sem Allen sagði að við ættum skilið. Daginn eftir fórum við svo á völlinn og stuðningsmennirnir voru mættir með von um að önnur óvænt úrslit myndu eiga sér stað. Þeir fögnuðu okkur þegar við komum í rútunni og ég sá fjölskyldu mína bíða með Brentford trefla um hálsinn. Troðfull stúkan varð vitni að okkur þar sem við börðumst til síðasta blóðdropa, en við uppskárum ekki og töpuðum 3-1. Það er skondið að segja frá því að stuðningsmaðurinn sem ferðaðist með okkur, og var á bekknum sem “hluti af þjálfarateyminu”, fékk skipun frá stjóranum um að hvetja okkur til dáða af hliðarlínunni. Hann mætti út að hliðarlínu og byrjaði að kalla það sem allir stuðningsmenn myndu segja úr stúkunni, við misstum boltann og Charlton skoraði. Frábær “hvatning”!

Þó svo að ég spili núna á Íslandi gat ég samt fengið aðeins að finna fyrir töfrunum sem stuðningsmaður þegar ég heimsótti England yfir jólin og áramótin. Ég og faðir minn fórum saman og horfðum á Swindon Town úr C-deildinni mæta Wigan í 3. umferð. Völlurinn var alveg troðinn og þetta var mikil nostalgía fyrir mig. Þetta minnti mig á það þegar ég var krakki og varð vitni að því þegar Swindon fór upp í úrvalsdeildina.

Paulo Di Canio var eins og andsetinn maður á varamannabekknum, stuðningsmennirnir kölluðu “þetta er ástæðan fyrir því að þið munið falla” í hvert skipti sem sending eða skot hjá Wigan mistókst. Fólk söng og fagnaði eins og þetta væri síðasti leikur sem það myndi horfa á.

Swindon spilaði frábæran leik og vann 2-1. Þetta var sérstakur dagur og ég var þarna. Á svona degi myndi ungt barn fara með foreldrum sínum á völlinn í fyrsta skiptið og verða ástfanginn af knattspyrnu. Dagur sem nýr Swindon Town stuðningsmaður verður til.

Við köllum þetta “rómantík bikarsins”. Þannig að hvort sem það er Liverpool gegn Manchester United, Swindon Town gegn Wigan eða Thatcham Town gegn Newbury, þá mun aldrei neitt jafnast á við FA bikarinn, hvergi í heiminum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner