fös 11. október 2019 18:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ólíklegt þykir að Chevrolet framlengi við Man Utd
Chevrolet hefur verið framan á treyjum Manchester United frá 2014.
Chevrolet hefur verið framan á treyjum Manchester United frá 2014.
Mynd: Getty Images
Sagan segir að bílaframleiðandinn Chevrolet vilji hætta sem styrktaraðili Manchester United vegna dapurs árangurs inn á fótboltavellinum hjá United.

Man Utd hefur byrjað hörmulega á þessu tímabili og er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir átta umferðir, aðeins með tveimur stigum frá fallsæti.

Manchester United hefur verið á hraðri niðurleið frá því Sir Alex Ferguson hætti sem stjóri liðsins árið 2013.

Chevrolet skrifaði undir 400 milljón punda samning við Manchester United árið 2012, þegar liðið var enn undir stjórn Sir Alex. Síðan hann hætti hefur United ekki komist nálægt því að vinna Englandsmeistaratitil, félagið komst næst því 2017/18 þegar það endaði í öðru sæti, þó 19 stigum frá Manchester City.

Daily Mail segir að það sé ólíklegt að Chevrolet framlengji samning sinn þegar hann rennur út eftir næsta tímabil.

Forráðamenn Chevrolet eru sagðir óánægðir með frammistöðu United, en heimildarmaður Daily Mail segir að það hafi aldrei verið möguleiki á að samningurinn yrði framlengdur.

„Þetta var dauðadæmt frá byrjun. Tilfinningin var sú hjá Chevrolet að þeir hefðu borgað alltof mikið og að það myndi aldrei gerast aftur."

Joel Ewanick, maðurinn sem gerði samninginn fyrir hönd Chevrolet, var látinn fjúka stuttu eftir að samningurinn var gerður.

Ed Woodward er því byrjaður að leita að nýjum styrktaraðila til að prýða treyjur Manchester United.
Athugasemdir
banner
banner
banner