þri 03. desember 2019 19:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segist hafa fengið ósanngjarna meðferð frá Mourinho
Josh Bohui.
Josh Bohui.
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho.
Jose Mourinho.
Mynd: Getty Images
Joshua Bohui, fyrrum leikmaður í akademíu Manchester United, hefur sakað Jose Mourinho, fyrrum stjóra United og núverandi stjóra Tottenham, um ósanngjarna meðferð.

Mourinho var rekinn frá Man Utd í desember á síðasta ári og var hann ráðinn til Tottenham fyrir um tveimur vikum síðan.

Mourinho hefur oft verið gagnrýndur fyrir að nota ekki unga og efnilega leikmenn, en Bohui ákvað að yfirgefa United út af portúgalska knattspyrnustjóranum.

„Þetta var erfitt vegna þess að ég fékk ósanngjarna meðferð frá knattspyrnustjóranum á þeim tíma," sagði Bohui við Manchester Evening News.

Hann segist hafa hafnað tilboðum frá Man Utd, en hann er í dag á mála hjá NAC Breda í Hollandi.

„Ég var pirraður á því hvernig hann kom fram við mig. Sum orðin sem hann notaði, mér fannst það óþarfi og ég talaði við nokkrum sinnum við félagið um það."

„Ég hafnaði tilboðum vegna þess að ég hafði ekki trú á því að ég myndi komast í aðalliðið miðað við það hvernig var komið fram við mig. Það var ekki verið að fylgjast með mér."

Ole Gunnar Solskjær, núverandi stjóri Man Utd, hefur verið duglegri að gefa yngri leikmönnum tækifæri í aðalliðinu.

„Ég trúi því að Ole líti á unga leikmenn og hann er standa sig mjög vel í því."

„Sjáið Brandon Williams að stíga upp í aðalliðinu, Mason Greenwood, James Garner og um daginn þegar nokkrir leikmenn léku sinn fyrsta leik. Ég var mjög ánægður fyrir þeirra hönd, ég vona bara að þeir haldi áfram að fá tækifæri."

„Þetta var smá óheppni fyrir mig, en ég sé ekki eftir ákvörðun minni... ég veit að ég mun einn daginn spila fyrir Manchester United."

Mourinho mun á morgun snúa aftur á Old Trafford sem stjóri Tottenham þegar United og Spurs eigast við í ensku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner
banner