Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   mið 04. júlí 2007 10:30
Magnús Már Einarsson
Heimild: Reuters | Heimasíða Liverpool 
Fernando Torres: Gat ekki hafnað tilboði Liverpool
Verður númer 9 hjá Liverpool
Mynd: Getty Images
Fernando Torres framherji Atletico Madrid segir það hafa verið sína eigin ákvörðun að fara til Liverpool en hann mun skrifa undir samning við enska félagið í dag.

,,Það eru augnablik í íþróttalífi þínu þar sem að þú þarft að leita eftir nýrri áskorun og þetta var það," sagði Torres á fréttamannafundi á Vicente Calderon heimavelli Atletico Madrid í morgun.

,,Ákvörðunin var mín. Við fengum tilboðið og ég bað félagið um að hlusta á það. Það var erfitt að fara en ég gat ekki hafnað tilboði Liverpool, þetta var einstakt tækifæri. Allir íþróttamenn vilja vinna hluti og Liverpool er félag sem stefnir á að vinna allt. Það var stór hluti í ákvörðun minni."

Torres verður dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi og mun hann fá treyju númer 9 hjá félaginu. Hann vonast til að feta í fótspor manna eins og Ian Rush og Robbie Fowler sem hafa verið í sömu treyju og gert góða hluti.

,,Sú staðreynd að þeir eru að láta mig fá treyju númer níu sýnir bara traustið sem þeir hafa á mér þegar að þú skoðar hverjir hafa verið í þessari treyju á undan mér."

,,Rafa Benitez hefur gefið mér möguleika á að taka skref fram á við á ferli mínum og ég vil endurgjalda traustið með mörkum,"
sagði Torres.

Enrique Cerezo forseti Atletico Madrid hrósaði Torres fyrir framlag sitt til félagsins. ,,Fyrir hönd félagsins langar mér að þakka einum besta leikmanni sem leikið hefur með liðinu."

,,Fernando samþykkti aldrei tilboð sem hann fékk frá öðrum spænskum félögum því að hann vildi ekki spila fyrir annað félag en Atletico en við skiljum ákvörðun hans að fara og við vonumst eftir að hann muni einn daginn koma til baka,"
sagði Cerezo.

Stuðningsmenn Atletico Madrid eru allt annað en sáttir við að Torres sé á förum og 75 aðdáendur liðsins komu fyrir utan Vicente Calderon völlinn í morgun og kröfðust þess að Cerezo og Miguel Angel Gil Marin eigandi félagsins myndu segja af sér.

,,Þetta er hræðilegt fyrir Atletico. Torres var okkar besti leikmaður og hann mun pottþétt standa sig hjá Liverpool en Atletico mun eiga í erfiðleikum með að jafna sig eftir þetta," sagði einn stuðningsmaður í treyju merktri Torres við Reuters fréttastofuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner