Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 01. apríl 2020 10:30
Fótbolti.net
Berglind Björg fær bónorð frá fólki úti í heimi
Berglind Björg var að gera góða hluti með AC Milan áður en ítalska deildin var sett á ís
Berglind Björg var að gera góða hluti með AC Milan áður en ítalska deildin var sett á ís
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir var í viðtali í nýjasta þætti Heimavallarins en þar segir hún frá dvöl sinni hjá ítalska stórliðinu AC Milan.

„Það kom mér á óvart hvað deildin er orðin stór. Ég spilaði á Ítalíu 2017 og það er óhætt að segja að deildin er ekki á sama stað núna eins og þá. AC Milan er náttúrulega stórklúbbur og það er hugsað mjög vel um leikmennina og allt er rosalega fagmannlegt. Það hefur verið ótrúlega gaman að vera í þessu umhverfi,“ sagði Berglind sem var að spila virkilega vel fyrir stórlið AC Milan áður en að hlé var gert á keppni í Serie A á Ítalíu vegna útbreiðslu Covid 19 veirunnar.

Berglind Björg lék með Verona á Ítalíu árið 2017 og lenti þá í töluverðum hremmingum en félagið stóð ekki við gerða samninga og dvöl Berglindar var erfið. Hún viðurkennir að hafa verið smeyk við að reyna aftur fyrir sér á Ítalíu.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá var ég pínu efins. Þess vegna fékk ég leyfi til að fara út og skoða allar aðstæður áður en ég tók ákvörðun. Eftir að hafa farið að skoða, hitt og talað við alla þá var ég eiginlega bara seld og tók ákvörðunina í fluginu á leiðinni heim til Íslands.“

Berglind er ánægð með alla aðstöðu hjá AC Milan og segist hafa lært ýmislegt enda séu aðrar áherslur á æfingum og í leikjum en hún hefur átt að venjast á Íslandi.

„Þetta er töluvert öðruvísi. Það sem ég sakna mest frá Íslandi er að fara í „Brassa“, það er alls ekki gert hérna“, sagði Berglind á léttu nótunum. „Það er lagt mjög mikið upp úr taktík og smáatriðum sem er kannski ekki unnið mikið með heima. Í raun er þetta tvennt ólíkt og gaman að fá að upplifa það.“

„Ég er búin að vera að spila sem nía en er líka búin að vera bæði á hægri og vinstri kanti. Það er mjög skrítið en hefur gengið vel og er klárlega öðruvísi en ég er að gera heima.“


Það eru þó ekki ólíkar æfingaaðferðir eða leikskipulag sem hefur komið Berglindi mest á óvart heldur áhuginn sem liðinu er sýndur.

„Ég held að það hafi verið mesta sjokkið eftir að ég kom út að sjá hvað liðið er að fá mikla umfjöllun og athygli.“

„Ég held að Instagrammið mitt hafi bara sprungið þegar ég kom hingað. Maður er að fá skilaboð frá hinum og þessum og bónorð frá fólki út í heimi. Þetta er bilað en það er gaman að þessu,“
sagði knattspyrnukonan öfluga meðal annars en hægt er að hlusta á allt viðtalið við hana hér að neðan.

Þátturinn er í boði Dominos, Heklu og Vita ferða
Heimavöllurinn - Topp 6, útgöngubannið og besta lið Íslands
Athugasemdir
banner
banner
banner