
Jóhann Berg Guðmundsson var ekki valinn í landsliðshópinn fyrir komandi landsleiki gegn Úkraínu og Frakklandi. Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari sagði á blaðamannafundi í gær að hann ræddi ekki við Jóhann um ákvörðun sína og taldi að aðrir leikmenn standi Jóhanni framar.
Arnar var spurður hvers vegna hann tilkynnti Jóhanni þetta ekki í viðtali í gær.
„Ég tilkynni vanalega leikmönnum þegar þeir eru búnir að vera í síðasta hóp, eins og ég hafði samband við Hjört (Hermannsson). Ekki þegar þeir eru búnir að missa af tveimur gluggum í röð, þá ertu allt í einu búinn að búa til vinnureglu.“
„Hvenær hættiru að tilkynna leikmönnum og hverjum átt þú ekki að tilkynna? Þetta er ágætis vinnuregla sem ég er búinn að innleiða hjá sjálfum mér og ég ætla að halda mér við hana. En honum er velkomið að hringja í mig hvenær sem er.“
Jóhann Berg, er með 99 landsleiki undir beltinu, missti af síðasta glugga vegna meiðsla en er kominn á fullt með félagsliði sínu, Al Dhafra í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Á blaðamannafundinum í gær sagði Arnar aðra leikmenn standa Jóhanni framar.
„Það er augljóst að síðasti gluggi fór mjög vel og sá hópur sem var á vaktinni þá stóð sig vel. Við reyndum að hreyfa sem minnst við hópnum frá því síðast. Þeir leikmenn sem eru að spila í hans stöðum eru bara framar að þessu sinni,“ sagði Arnar á blaðamannafundinum.
Arnar tjáir sig um mál Jóhanns eftir rúmlega níu mínútur í viðtalinu hér að neðan.