„Þetta er risaleikur en það er rétt að halda spennustiginu réttu," segir landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason en hann ræddi við Fótbolta.net á æfingu Íslands í Antalya í morgun. Framundan er risaleikur hjá íslenska liðinu gegn Tyrklandi á föstudag.
„Ef við horfum á hópinn er gríðarleg samkeppni og kannski ólíkt síðustu keppni hefur verið mikið um róteringar. Maður sér meiri séns á að spila núna en í síðustu keppni þar sem sama liðinu var stillt fram oftar en ekki."
Með aukinni breidd er liðið frekar tilbúið að takast á við áföll. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er tæpur fyrir leikinn.
„Aron er gríðarlega mikilvægur fyrir þetta lið en að sama skapi er breiddin fín. Aron er mikilvægur en við trúum að maður komi í manns stað," segir Rúrik.
Rúrik hefur ekkert fengið að spila síðustu leiki með liði sínu Nurnberg í Þýskalandi og hefur ekki skýringar á því af hverju hann sé í kuldanum.
„Þetta er erfið staða. Maður er í frystikistunni og virðist vera sama hvað maður gerir, það er erfitt að fá sénsinn. Ég átti gott undirbúningstímabil en það virðist ekki hafa breytt miklu."
Hann veit það vel að ef staðan breytist ekki þurfi hann að hugsa sér til hreyfings í janúarglugganum.
„Ég held að allir fótboltamenn sem spila ekki hugsi það. Maður verður að velta fyrir sér öllum möguleikum. Það er langt í næsta glugga og á meðan ég er hjá Nurnberg legg ég mig allan fram til að komast í liðið," segir Rúrik en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























