
„Úrslitin voru frábær, héldu mér fulllengi á brúninni stelpurnar. 1-0 eftir 30 sekúndur og svo 94 og hálf mínúta þar sem að var mikil barátta þannig að ég hugsa að þetta fari nú ekki í sögubækurnar sem einhver kampavínsfótbolti sem var spilaður í dag en þrjú stig þau ylja og verðskulduð." sagði Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari Þróttar í Bestu deild kvenna eftir 1-0 sigur liðsins á Tindastóli í dag í 4. umferð Bestu deildar kvenna.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 0 Tindastóll
Þróttur skoraði eina mark leiksins þegar 30 sekúndur voru liðnar af leiknum.
„Við lögðum ekkert upp með að skora eftir 30 sekúndur en maður fagnar því þó að það gerist snemma. Sko Tindastóll var með gott leiksskipulag og þær eru með leikmann og leikmenn frammi sem eru skeinuhættar og við þurftum að leggja svolitla áherslu á að loka á það. Mér fannst það takast vel. Mér fannst Makala, senterinn þeirra, sem hefur verið að valda usla í upphafi móts mér fannst við halda hennin vel í skefjum, varnarlínan okkar. Þær spiluðu mikið yfir miðjuna þannig að miðjan var ekki mikið í leik, mikið af seinni boltum. Mér fannst við kannski aðeins ströggla í fyrri hálfleik, það var betra í seinni hálfleik."
„Á boltanum þá vorum við full órólegar og duttum í tangóin sem að Tindastóll vildi hafa. Hann var fullhraður á köflum og hefðum alveg mátt fara svona áttund niður og vera í aðeins rólegri takti en mér fannst við vera. Þannig það var mikill óróleiki í þessum leik, ekki mikið um færi og kannski meiri barátta heldur en gæði."
Viðtalið við Ólaf má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.