Leicester City vann langþráðan sigur í ensku úrvalsdeildinni er það hafði betur gegn Southampton, 2-0, á King Power-leikvanginum í Leicester í dag. Ipswich Town tókst að koma til baka gegn Everton í 2-2 jafntefli á Goodison Park.
Tæpir fjórir mánuðir voru liðnir frá síðasta sigri Leicester í deildinni og kostaði slakt form liðsins fall niður í B-deildina.
Leikmenn voru staðráðnir í að klára tímabilið með sæmd og alveg ljóst að sigurinn í dag hafi skapað aðeins betri áru yfir leikmannahópnum.
Jamie Vardy, sem kveður Leicester eftir tímabilið, skoraði á 17. mínútu eftir fyrirgjöf Bilal El Khannouss frá vinstri. Vardy mætti boltanum á miðjum teignum og hamraði honum efst í vinstra hornið.
Fögnuðurinn mikill enda um kveðjuför kappans að ræða, sem ætlar að sjá til þess að hann endi þetta á góðum nótum.
Sérstakt atvik gerðist á 33. mínútu leiksins en þá fékk David Webb, dómari leiksins, höfuðhögg eftir viðskipti sín við Jordan Ayew.
Webb lá óvígur og hélt leikurinn áfram en Vardy sá til þess að stöðva leikinn með því að hlaupa að Webb, rífa í flautu hans og blása hressilega í hana. Fyndin viðbrögð hjá Vardy en ekkert sérstaklega fyndið fyrir Webb sem þurfti að ljúka leik í frumraun sinni í deildinni.
Það tók sinn tíma að hlúa að Webb áður en ákveðið var að hann myndi ekki halda leik áfram og tók Samuel Barrott við flautunni.
Leicester-liðið bætti við öðru marki sínu á 44. mínútu en þar var að verki Ayew. Heimamenn fengu aukaspyrnu sem Ayew setti í vegginn en boltinn kom aftur til hans og skoraði hann úr frákastinu með laglegu skoti.
Southampton skoraði í þeim síðari en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Annars leit liðið aldrei út fyrir að koma sér aftur inn í leikinn og langþráður sigur Leicester í höfn.
Leicester með 21 stig í næst neðsta sæti en Southampton á botninum með 11 stig.
Ipswich kom til baka á Goodison
Everton og Ipswich gerðu 2-2 jafntefli á Goodison Park.
Everton-menn voru að spila á Goodison í næst síðasta sinn og vildu þeir kveðja völlinn almennilega.
Beto tók forystuna með skalla eftir fyrirgjöf Alcaraz um miðjan fyrri hálfleikinn og bætti Dwight McNeil við öðru með frábæru skoti framhjá Alex Palmer.
Undir lok hálfleiksins komust Ipswich-menn inn í leikinn og þurfti stórkostlegt mark til. Julio Enciso dansaði með boltann 30 metrum frá marki áður en hann hamraði honum í þverslá og inn. Eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Ipswich kom sterkara inn í síðari hálfleikinn. Enciso var ekki langt frá því að jafna í byrjun hans en jöfnunarmarkið kom fyrir rest þegar George Hirst stangaði boltanum í netið tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
Svekkjandi úrslit fyrir heimamenn sem glutruðu niður tveggja marka forystu og misstu um leið af tækifærinu að komast upp fyrir Wolves á töflunni. Everton er í 14. sæti með 39 stig en Ipswich í 18. sæti með 22 stig.
Everton 2 - 2 Ipswich Town
1-0 Beto ('26 )
2-0 Dwight McNeil ('35 )
2-1 Julio Enciso ('41 )
2-2 George Hirst ('79 )
Leicester City 2 - 0 Southampton
1-0 Jamie Vardy ('17 )
2-0 Jordan Ayew ('44 )
Athugasemdir