Sigurvin Ólafsson þjálfari Þróttar fannst liðið sitt hefði getað aðeins betur í kvöld eftir að þeir gerðu jafntefli 1-1 gegn Leikni.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 1 Leiknir R.
„Það var fiðringur í mörgum. Ákveðin spenna að spila fyrsta leik, erum búnir að bíða lengi eftir þessu. Þannig að menn voru sumir svolítið að hlaupa af sér hornin, og koma sér í gírinn. Ég sá margt gott, mér fannst við vera ofan í, í þessum leik og aðeins líklegri til að vinna. Einhversstaðar var það nú sagt að það væri vont að skora of snemma, við skorum náttúrulega alveg í byrjun. Ekki það að við höfum farið að verja það eitthvað of mikið en við kannski bökkuðum full mikið, og Leiknismenn fengu að hanga svolítið á boltanum." Sagði Venni.
„Þeir ógnuðu ekki mikið og við höfðum nú ekki miklar áhyggjur, okkur vantaði bara að búa til betri sóknir til þess að komast í 2-0 þá hefðum við mögulega bara getað klárað þennan leik. Við fáum á okkur svona hálfgert skítamark, sem að jafnar leikinn og það er bara spenningur í mannskapnum. Við fáum held ég fleiri færi en þeir, en þeir eru með nokkra einstaklinga í liði sínu sem eru stórhættulegir. Þannig maður var aldrei viss."
Jakob Gunnar Sigurðsson kom á láni frá KR fyrir þetta tímabil, en hann spilaði með Völsungi á síðasta tímabili og sló markamet í þeirri deild. Hann byrjaði á bekknum í dag en kom þó inná og lét finna fyrir sér.
„Hann er búinn að koma mjög sterkur inn í hópinn, bara smellpassar inn í allt saman og er búinn að standa sig mjög vel. Hann var meiddur, gat ekki spilað síðasta æfingaleik fyrir mót. Það var bara einhver smávægileg meiðsli sem var ein af ástæðum þess að ég geymdi hann á bekknum í dag. Hann kom inná og var ógnandi, þá hann hafi ekki náð að skora í þetta skiptið."
Þrótturum er spáð 4. sæti af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar en Sigurvin stefnir á að reyna koma liðinu upp um deild.
„Það er auðvitað bara kjánalegt að stefna að einhverju öðru en að fara upp. Ein leiðin er bara að vera í efsta sæti, svo er önnur leið að fara í umspil. Önnurhvor leiðin, mér er sama hvor hún er."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.