,,Að við unnum ekki þennan leik er svolítið sérstakt. Ég held að þeir hafi ekki átt færi," sagði Kjartan Henry Finnbogason leikmaður KR eftir markalaust jafntefli við Glentoran í Evrópudeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: KR 0 - 0 Glentoran
,,Þeir náðu svolítið að gera það sem þeir vildu, tefja frá fyrstu mínútu og æsa okkur upp. Það er bara hálfleikur, ég get ekki beðið eftir að fara út og gera betur."
Leikmenn Glentoran voru duglegir við að tefja við hvert tækifæri í leiknum í dag.
,,Það er pása í deildinni hjá þeim og ég trúði því ekki fyrir leikinn að þeir myndu leggjast svona lágt. Þeir fengu dómarann smá með sér í lið, hann tók ekki á neinu. Ég held að þeir hafi tekið tvær mínútur í hvert einasta innkast og við urðum fljótt pirraðir."
,,Þeim tókst það sem þeir ætluðu sér, að halda hreinu, og nú verðum við að gera slíkt hið sama og skora á þá."
Kjartan Henry er óðum að nálgast sitt gamla form eftir langa fjarveru vegna meiðsla í vetur en hann byrjaði leikinn í dag.
,,Eftir þennan leik er ég kominn með fleiri mínútur og það er það sem mig vantaði. Ég hefði viljað gera betur en það er erfitt að byrja í Evrópuleik eftir að hafa verið frá í eitt ár. Það er gaman að byrja leikinn og síðan sjáum við hvernig ég verð á morgun," sagði Kjartan.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir























