De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   sun 07. júní 2020 23:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tómas um Brynjólf: Gat minna en ekki neitt
Brynjólfur í leiknum gegn Val.
Brynjólfur í leiknum gegn Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjólfur Andersen Willumsson.
Brynjólfur Andersen Willumsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miklar vonir eru bundnar við Brynjólf Andersen Willumsson, sóknarleikmann Breiðabliks, fyrir sumarið. Það sést meðal annars á því að hann er á meðal vinsælustu leikmanna Draumaliðsdeildar Eyjabita.

Brynjólfur, sem verður tvítugur í sumar, kom við sögu í 17 leikjum í Pepsi Max-deildinni á síðasta ári og skoraði þrjú mörk. Brynjólfur hefur verið í yngri landsliðum Íslands og var til dæmis sterklega orðaður við sænska félagið Helsinborg síðasta sumar.

Tómas Þór Þórðarson segist ekki skilja 'hæpið' í kringum Brynjólf og var hann ekki hrifinn af því sem hann sá frá honum í æfingaleik gegn Val á dögunum.

„Hann var það ömurlegur í þessum Breiðablik - Valur leik að ég hef aldrei séð annað eins, það er verið að treysta honum fyrir tíunni í þessu liði og hann gat minna en ekki neitt," sagði Tómas Þór í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 í gær.

„Ég las viðtal við hann um daginn á Fótbolta.net og þar var hann spurður út í dýfurnar. Hann sagði að það væri algjört kjaftæði, að hann væri ekkert að dýfa sér. Ég hafði aldrei heyrt þetta áður, ég hef aldrei heyrt að hann sé einhver dýfari. Svo fór ég á Valur - Breiðablik og hann stóð ekki í fæturnar, hann var að bíta gervigras allan leikinn."

„Hann gat ekki neitt, hann var pirraður og fékk heimskulegt gult spjald fyrir að sparka boltanum í burtu í æfingaleik. Er þessi gæi ekki á topp tíu yfir mest keyptu leikmennina í Draumaliðsdeildinni? Byggt á hverju er það? Það er rosalega leiðinlegt að tala niður unga leikmenn, en ég skil ekki hæpið."

Tómas Ingi Tómasson, sérfræðingur í Pepsi Max-mörkunum, var í þættinum og sagði: „Stundum er það þannig, það var hjá mér þegar ég var að spila, að ég þurfti að ná mér í gult spjald til að 'starta' sjálfum mér. Það var eitt af mínu til að gera. Kannski þarf hann að gera þetta sjálfur."

„Ég vil sjá sem flesta unga stráka spila og vera góðir, og ég tala nú ekki um þegar þeir eru einhverjir karakterar, en hann verður að gera betur en þetta," sagði Tómas Þór.

Þess má geta að Brynjólfur var á skotskónum í dag þegar Breiðablik vann HK í æfingaleik.

Umræðuna úr útvarpsþættinum í gær má hlusta á hér að neðan.

Sjá einnig:
Brynjólfur með pöndugreiðslu
Upphitunarþáttur Pepsi Max - Spá sumarsins
Athugasemdir
banner