Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 11. mars 2020 11:15
Miðjan
Tómas Ingi fór aftur í tvær stórar aðgerðir - Allt er þegar sjö er
Tómas Ingi Tómasson.
Tómas Ingi Tómasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas Ingi Tómasson er gestur Hafliða Breiðfjörð í Miðjunni á Fótbolta.net í þessari viku. Tómas Ingi hefur glímt við erfið veikindi undanfarin ár og farið í sjö aðgerðir af þeim sökum.

„Ég fer í mjaðmaaðgerð 2015 sem misheppnast. Það er ekkert gert við mig í þrjú ár svo ég fer aftur í aðgerð 2018 og tel að ég verði góður eftir aðgerðina. Eftir hana varð ég að leggjast inn á sjúkrahús í átta mánuði. Síðan þá hef ég verið inn og út úr sjúkrahúsi og þetta hafa verið tóm leiðindi," sagði Tómas Ingi í Miðjunni.

Tómas lenti í slæmu bakslagi á síðasta ári og hann fór í kjölfarið í tvær aðgerðir til viðbótar.

„Það var bein í líkamanum sem var sýkt og það þurfti að fjarlægja það og tvö vöðva úr líkamanum í tveimur stórum aðgerðum í nóvember. Þetta var vonandi það síðasta. Allt er þegar sjö sinnum er," sagði Tómas Ingi léttur í bragði.

„Þeir sögðu að ég ætti að geta jafnað mig eins og ég get þegar eru tvö ár komin frá uppskurði. Þá er talað um 50% bata. Þegar ég má fara af stað þá reyni ég að styrkja mig og hraða þessu ferli án þess að ætla fram úr mér. Þetta er búið að vera rosalegt álag. Ég má ekki eyðileggja það með einhverjum vitleyssiskap."

Tómas Ingi var aðstoðarþjálfari U21 liðsins í áraraðir og hann missti af síðustu leikjum sínum með liðið þar sem hann lá á sjúkrahúsi. U21 liðið og KSÍ sýndi Tómasi Inga mikinn stuðning og gamlir félagar úr Fylki héldu Tommadaginn fyrir hann í desember 2018.

„Ég hef fengið ofboðslega góðan stuðning frá mörgum í þessari baráttu. Mér þykir ótrúlega vænt um það hvað margir hafa stutt mig í gegnum það sem ég hef farið í gegnum," sagði Tómas Ingi sem ætlar að þjálfa áfram í framtíðinni.

„Ég ætla mér aftur í fótboltann og langar að þjálfa. Hvort sem það er með einhverjum öðrum eða aðalþjálfari. Það skiptir ekki öllu máli. Það skiptir meira máli hverjum ég verð með. Ef ég verð aðstoðarþjálfari þá yrði það ekki með hverjum sem er á Íslandi," sagði Tómas Ingi.

„Ég var með 2. flokkinn hjá Fylki og það var mjög skemmtilegt. 2. flokkur er flokkur eins og meistaraflokkur. Það er rosa tími sem fer í það og þú ert með 4-5x lægri laun. Ég myndi frekar vilja fara í meistaraflokkinn eða vinna með krökkum eins og ég hef gert. Mér finnst æðislega gaman að vinna með yngri krökkum."

Í Miðjunni ræðir Tommi meira um baráttu sína undanfarin ár.
Miðjan - Tómas Ingi Tómasson fer yfir ferilinn
Athugasemdir
banner
banner
banner