Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   mán 11. nóvember 2024 13:24
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Gaf afsvar áður en rétta starfið bauðst - „Ágætis kostur að þurfa ekki að hafa plan A-E"
Lengjudeildin
Eyjamaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning við HK um helgina.
Eyjamaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning við HK um helgina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ómar Ingi vann mjög gott starf hjá HK.
Ómar Ingi vann mjög gott starf hjá HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd úr Kórnum.
Mynd úr Kórnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hemmi á eftir að ræða við Leif.
Hemmi á eftir að ræða við Leif.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Ég fékk símtal skömmu eftir að Ómar hættir með liðið, það kom óvænt upp að þetta starf væri laust, ég fékk símtal ásamt þónokkrum öðrum skilst mér sem voru teknir í viðtal. HK-ingar voru að vanda til verka og svo var þessu lokað núna á laugardaginn," segir Hermann Hreiðarsson, nýr þjálfari HK, við Fótbolta.net.

Hemmi segist hafa farið á tvo fundi með stjórninni. „Nei nei, ég vissi ekki eftir seinni fundinn að ég fengi starfið. Það var rætt um að það yrði haft samband innan skamms, ekkert ákveðið. Svo bara núna varð þetta allt klárt á laugardaginn."

„Um leið og ég fékk símtalið þá fékk ég rosalega góða tilfinningu. Maður er alltaf með einhvers konar hugmynd í hausnum af öllum klúbbum og HK alltaf verið ótrúlega góður klúbbur að heimsækja og virðing fyrir því sem félagið hefur verið að gera. Mikið af ungum leikmönnum verið að spila, margir uppaldir, búið að gera ótrúlega vel í því á síðustu árum. Ég varð strax spenntur fyrir þessu."


Ómar skilaði ótrúlega öflugu starfi
Má Hemmi gera hvað sem hann vil við lið HK eða kemur hann inn í ákveðna stefnu hjá félaginu?

„Það er búið að móta stefnu, það er engin spurning. Ómar er búinn að skila alveg ótrúlega öflugu starfi hérna síðustu ár. Það verður að viðhalda því og reyna bæta við. Þetta er ungur klúbbur í vaxandi í hverfi. Það eru tækifæri hérna, það verður að stíga eitt skref í einu og reyna efla klúbbinn ár frá ári, komast eitthvað fram á við."

Hungur að gera eins vel og hægt er
HK féll úr Bestu deildinni á markatölu í lok síðasta mánaðar. Í kjölfarið hætti Ómar Ingi Guðmundsson sem þjálfari liðsins en hann var á sínu þriðja tímabili með liðið. Hemmi segir að markmiðið sé að fara upp úr Lengjudeildinni næsta sumar.

„Það er engin spurning, ég held að flest lið í þessari deild geri það og HK er engin undantekning. Deildin spilaðist frábærlega síðasta sumar, mjög skemmtileg deild. Við erum líka með langtímamarkmið, þau verða að gilda og við tökum eitt skref í einu. Það þýðir ekki að fara umbreyta klúbbnum, það eru gríðarlegir möguleikar í boði. Ég er búinn að hitta mikið af miklum HK-ingum og öflugu fólki sem stendur á bakvið félagið. Ég veit að það er hungur í að gera allt eins vel og hægt er og ég fer inn í þá vegferð með félaginu."

Búinn að heyra í einhverjum leikmönnum og á einhverja eftir
Hemmi er búinn að ræða við einhverja af þeim leikmönnum sem eru með lausa samninga.

„Ég er búinn að heyra í einhverjum og á einhverja eftir. Ég er að reyna sjá hvernig ramminn er á hópnum eins og hann er akkúrat í dag, reyna að koma mér inn í hlutina. Ég á eftir að tala við t.d. Leif (Andra Leifsson, fyrirliða HK). Ég vil líka ekki djöflast of mikið í mönnum, vil leyfa mönnum að anda aðeins eftir langt tímabil."

Hemmi er í því ferli að móta sitt þjálfarateymi, en hann segir ekkert orðið ljóst í þeim efnum. „Þetta er í vinnslu og það verður fundinn flötur í því."

Gríðarlega mikilvægt fyrir mig
Það eru ekki mörg þjálfarastörf laus eftir að síðasta tímabil kláraðist. Var Hemmi eitthvað farinn að hugsa hvað hann myndi gera ef honum stæði ekki til boða að þjálfa áfram í vetur?

„Ég var ekkert búinn að hugsa þetta neitt rosalega langt. Maður veit að starfið hjá þjálfara getur verið þannig að stundum er ekkert í boði. Ég átti frábær og lærdómsrík ár í Vestmannaeyjum og skilaði klúbbnum þar á góðum stað sem var gríðarlega mikilvægt fyrir mig og okkur í Eyjum. Þar var einbeitingin. Maður veit hvernig þetta er, það er ekkert sjálfgefið að hoppa upp í næsta starf einn, tveir og bingó. Ég var bara þolinmóður og sá hvað stóð til boða."

„Eflaust eitthvað neglt í ákveðin box"
HK ræddi við fleiri en Hemma. Er það gott fyrir sjálfstraustið að vera sá sem fær kallið frá félaginu?

„Þetta er skemmtilegt, það er gaman að fólk sé samstíga í því hvernig fólk sér stóru myndina, hvernig stefnan er sett. Það hefur eflaust eitthvað á þessum fundum með stjórninni neglt í ákveðin box. Það er alltaf góðs viti."

Gaf Gróttu afsvar
Hemmi ræddi við Gróttu á síðustu vikum, fór á nokkra fundi með félaginu. Grótta féll niður í 2. deild í haust og er næstefsta liðið í íslenska deildakerfinu sem er í þjálfaraleit. Gastu valið á milli?

„Nei, ég var búinn að gefa Gróttu afsvar. Það er spennandi vegferð þar, en mér fannst það ekki alveg rétta skrefið, ekki rétti tímapunkturinn fyrir mig. Það eru spennandi hlutir þar framundan, engin spurning."

Grunnurinn er til staðar
Fær Hemmi tækifæri til að styrkja hópinn fyrir næsta tímabil eða er aðallega horft í að nota þann hóp sem þegar er til staðar hjá HK?

„Grunnurinn er til staðar, það er engin spurning. Það verður fyrst og fremst horft í strákana sem eru til staðar og yngri strákarnir skoðaðir. Það er ákveðin vegferð sem heldur áfram, Ómar búinn að gera hrikalega vel. Það fer svo eftir því hverjir verða áfram, það eru einhverjir með lausa samninga og skoða sín mál. Það verður fyllt í það sem þarf að fylla í, en grunnurinn verður byggður á þeim sem eru hér fyrir og uppöldum strákum."

Þarf ekki plan A-E inni í Kór
Í tilkynningu HK var Hemmi boðinn velkominn í hlýjuna, Kórinn. Hvernig leggst það í þjálfarann að spila inni næsta sumar?

„Alveg frábærlega, því veðrið eins og það var síðasta sumar var hræðilegt. Að þurfa ekki að hafa plan A-E, út frá meðvindi eða hliðarvindi, er ágætis kostur. Við þessar aðstæður er hægt að einbeita sér að einu plani og maður veit að það stendur án þess að kíkja á veðurspána," segir Hemmi og hlær.

„Þetta er geggjuð aðstaða, ótrúlega hlýleg og heimilisleg. Það er mikið um að vera. Ég er gríðarlega spenntur fyrir framhaldinu, mig kitlar ansi mikið í puttana að byrja að æfa," segir Hemmi.

Komnir/farnir og samningslausir
Komnir
Eiður Atli Rúnarsson frá ÍBV (var á láni)
Ólafur Örn Ásgeirsson frá Völsungi (var á láni)

Farnir
Dagur Örn Fjeldsted í Breiðablik (var á láni)
Þorsteinn Aron Antonsson í Val (var á láni)

Samningslausir
Leifur Andri Leifsson (1989)
Ívar Örn Jónsson (1994)
Birkir Valur Jónsson (1998)
Atli Hrafn Andrason (1999)
Atli Arnarson (1993)
Christoffer Petersen (1997)
Tareq Shihab (2001)
Stefán Stefánsson (2004)
Eiður Gauti Sæbjörnsson (1999)
Ísak Aron Ómarsson (2004)
Andri Már Harðarson (2002)
Athugasemdir
banner
banner