Jón Daði Böðvarsson, kantmaður íslenska U21 landsliðsins, er spenntur fyrir komandi leik gegn Frakklandi í undankeppni EM 2015.
Íslendingar mæta Frökkum á Laugardalsvelli klukkan 18:30 á morgun, en strákarnir okkar eru með fullt hús stiga úr fyrstu fjórum leikjum riðilsins.
„Þetta leggst bara mjög vel í okkur. Það er búið að ganga mjög vel í síðustu leikjum og við erum búnir að vinna allt. Við mætum bara fullir sjálfstrausts í þennan leik, en engu að síður virkilega erfiður leikur og krefjandi,“ sagði Jón Daði við Fótbolta.net.
Hann viðurkennir að Frakkland sé klárlega sterkasti andstæðingur Íslands í riðlinum en segir þó engan ótta vera í íslenska liðinu.
„Ég held það alveg klárlega. Þetta er stórt lið, maður horfir bara á leikmannahópinn og þeir eru allir í stærstu liðunum í Frakklandi. Það ætti alveg að mótivera okkur að mæta grimmir til leiks,“ sagði Jón Daði.
„Sama hvernig staðan er á liðum á maður aldrei að vera smeykur við andstæðinginn. Við mætum bara fullir sjálfstrausts í þennan leik, við erum bara fótboltaleikmenn eins og þeir, þannig að það er engin hræðsla í okkur.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir























