fös 14. ágúst 2020 15:30
Fótbolti.net
Gunnhildur Yrsa er talskona Athlete Ally - Mikilvægt að fólk geti verið það sjálft
Gunnhildur Yrsa nýtir stöðu sína til að vekja athygli á mikilvægum málefnum
Gunnhildur Yrsa nýtir stöðu sína til að vekja athygli á mikilvægum málefnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins. Hún gerði á dögunum lánssamning við Val og mun leika með Valsliðinu út tímabilið þar sem ekki er leikið í bandarísku atvinnumannadeildinni um þessar mundir en Gunnhildur er þar á mála hjá Utah Royals.

Gunnhildur Yrsa hefur nýtt stöðu sína sem atvinnukona og fyrirmynd til þess að vekja athygli á málefnum sem skipta hana máli og er í dag talskona fyrir samtökin „Athlete Ally“. Samtökin berjast fyrir því að allar manneskjur hafi jafnan aðgang að og tækifæri til að stunda íþróttir, sama hver kynhneigð, kynvitund og kyntjáning þeirra er, án þess að mæta hatri eða fordómum.

„Það var haft samband við mig og ég beðin um að vera talskona fyrir samtökin. Það er gaman að fá leikmenn frá öðrum löndum inn í þetta. Þetta snýst um baráttuna fyrir LGBTQI samfélagið að geta spilað sína íþrótt og vera þau sjálf. Fyrir mér er mjög mikilvægt að við ræðum um hlutina og vekjum athygli á þeim, hvort sem það er andleg heilsa eða hvað. Það er mjög mikilvægt að fólk geti verið það sem það er og eigi rétt á að vera það sjálft. Sums staðar er það bara ekki þannig og það er sorglegt,“ sagði Gunnhildur Yrsa og bætti við:

„Við á Íslandi erum heppin. Jafnréttismál eru á góðum stað og ég sem íslendingur gerði mér ekki grein fyrir því hvernig þetta væri úti í heimi áður en ég fór út. Þetta getur verið sérstaklega slæmt í Bandaríkjunum og þess vegna er mikilvægt að sjá íþróttafólk standa upp fyrir málefnið því þau hafa rödd til þess. Sjálf tek ég þátt í baráttunni með glöðu geði.“

„Ég held það sé auðveldara að líða vel með sjálfan sig þegar talað er um málin. Maður heldur oft að maður sé einn í sinni baráttu en ef málin eru rædd þá veistu að þú ert ekki ein og það getur hjálpað fólki til að opna sig.“


Hlustaðu á alla umræðuna í nýjasta þætti Heimavallarins.
Heimavöllurinn - Gunnhildur Yrsa er mætt aftur í íslenska boltann
Athugasemdir
banner
banner
banner