banner
   mið 15. maí 2019 18:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ætlum að sýna að við erum ekki eins búnir og sumt fólk heldur"
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska karlalandsliðið spilar í næsta mánuði tvo mikilvæga leiki í undankeppni EM 2020. Leikirnir eru gegn Albaníu og Tyrklandi hér heima og munu þeir skipta miklu máli í því hvort Ísland komist á EM eða ekki.

Ísland er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina í undankeppninni. Ísland vann Andorra 2-0 en tapaði svo 4-0 gegn Heimsmeisturum Frakklands.

Fréttaritari Fótbolta.net ræddi við landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson um möguleika Íslands.

„Ég er spenntur fyrir sumrinu. Síðustu tvö sumur í undankeppninni eru minnisstæð. Við mættum Tékklandi heima og Króatíu heima, það voru mikilvægir leikir og við unnum þá báða. Það þarf ekkert að gíra þessa stráka í það hversu mikilvægir leikirnir framundan eru. Þetta verða erfiðir leikir en þá kemur karakterinn okkar í ljós," sagði Aron.

„Ef við ætlum okkur á mótið þá þurfum við að vinna þessa tvo leiki í sumar og einbeita okkur að næstu verkefnum eftir það. Við vitum að þetta verður erfitt en við erum staðráðnir í að sýna okkur að sanna að við erum ekki alveg búnir eins og sumt fólk heldur."

„Það er klárlega gaman að fá tvo mikilvæga heimaleiki í sumar. Liðin sem hafa komið til Íslands hafa ekki verið jafn mótíveruð að sumri til og við höfum verið í síðustu tveimur undankeppnum. Vonandi verður það sama upp á teningnum núna."

„Við sjáum það samt að Tyrkirnir hafa verið að ná í góð úrslit, en við eigum allavega góð úrslit á móti Tyrkjunum í síðustu undankeppnum sem er bónus. Við kunnum vonandi á þá, en þeir eru líka að læra á okkur. Þetta er spennandi verkefni í sumar."

Aron vonast til þess að fá fullan Laugardalsvöll og mikla stemningu í leikjunum í sumar.

„Vonandi verður stemningin eins og hún hefur verið upp á síðkastið heima. Það skiptir okkur miklu máli. Þessi stuðningur hefur fleytt okkur þetta langt," sagði Akureyringurinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner