Pickford framlengir við Everton - Barcelona hyggst kaupa Rashford - Ekki framlengt við Lewandowski
   mán 13. október 2025 15:54
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Magnað sigurhlutfall Víkings með Vatnhamar innanborðs - „Mætir í einum tilgangi og það er að vinna“
Gunnar Vatnhamar er lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Víkings.
Gunnar Vatnhamar er lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur var með 80% sigurhlutfall með Vatnhamar innanborðs.
Víkingur var með 80% sigurhlutfall með Vatnhamar innanborðs.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Gunnar er draumur hvers þjálfara. Hann er auðvitað einstök mannvera, það er ekki annað hægt en að elska hann í ræmur. Hann er alltaf tilbúinn að fórna sér fyrir liðið, tilbúinn að fórna sinni heilsu fyrir liðið. Í grunninn er hann virkilega góður varnarmaður. Fyrir mér er helsti styrkleiki varnarmanns að meta hættuna, þú ert tilbúinn og vakandi þegar hún kemur og Gunnar er með það.“ 

Sagði Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkings aðspurður um mikilvægi Færeyingsins Gunnars Vatnhamars í liði Íslandsmeistaranna. Sölvi var gestur í útvarpsþætti Fótbolta.net á laugardaginn og hrósaði Gunnari í hástert.


Gunnar glímdi við meiðsli í sumar, en Vísir tók saman tölfræði um gengi Víkings með Færeyinginn í liðinu í ár. Sigurhlutfall Víkings var 80% með Vatnhamar innanborðs en einungis 50% þegar hann hefur verið frá eða byrjað á varamannabekknum. 

„Þjálfarar og sjúkrateymið þarf að halda aftur að honum þegar hann er að koma aftur eftir meiðsli. Hann kann ekki að stjórna hvenær hann getur æft og hvenær ekki. Hann segir bara alltaf að hann geti æft,“  segir Sölvi og heldur áfram.

„Besta útskýringin á honum og sýnir hvernig hann er var þegar að við mættum Djurgården í Sambandsdeildinni. Þá er Gunnar utan hóps vegna meiðsla. Þið vitið hvernig þessi fótboltastrákar eru þegar þeir eru utan hóps þá er valið flottasta múnderingin, einhverjir rándýrir jakkar og allt það ef myndavélin beinist að þeim. Nema hvað, okkar maður mætir bara í bláum kraftgalla, tilbúinn. Þetta lýsir honum fullkomlega, drullusama um hvað öðrum finnst eða hvernig hann er klæddur. Hann mætir í einum tilgangi og það er að vinna,“  segir Sölvi og hlær.


Útvarpsþátturinn - Landsliðið og Besta með Baldri og Sölva
Athugasemdir