
Nagelsmann hefur verið við stjórnvölinn hjá þýska landsliðinu í tvö ár. Hann tók við af Hansi Flick sem var í starfinu í tvö ár, en á undan honum hafði Joachim Löw þjálfað landsliðið í fimmtán ár.
Julian Nagelsmann landsliðsþjálfari Þjóðverja svaraði spurningum á fréttamannafundi í gær.
Þýskaland heimsækir Norður-Írland í kvöld en liðin eru jöfn á stigum á toppi A-riðils í undankeppni Evrópuþjóða fyrir HM.
Þýskaland vann 3-1 þegar liðin mættust í september og talaði Nagelsmann að leikslokum um að honum þætti leikstíll Norður-Íra vera 'sérstakur'. Hann sagði að það væri ekki gaman að horfa á svona fótbolta sem einblínir á langar sendingar upp völlinn.
„Ég sagði að það væri kannski ekki gaman að horfa á svona fótbolta en ég sagði líka að þeir gera þetta mjög vel. Þeir senda langa bolta upp völlinn og eru svo með plan fyrir hvað gerist næst. Þetta er ákveðin hugmyndafræði," sagði Nagelsmann við BBC.
„Þeir eru með góða stemningu í hópnum og þetta er lið sem er mjög erfitt að brjóta á bak aftur. Þeir fá ekki mikið af mörkum á sig og ná að skapa sér færi úr föstum leikatriðum."
Stephen Craigan, fyrrum landsliðsmaður Norður-Íra, talaði um að sér hafi þótt ummæli Nagelsmann eftir fyrri leikinn bera merki um vanvirðingu.
„Ég vil biðjast afsökunar ef einhverjum leið eins og ég hafi sýnt vanvirðingu með ummælunum mínum, það var ekki ætlunin. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu liði og þeirra leikstíl.
„Þeir eru með mjög sérstakan leikstíl og við munum þurfa að verjast á mörgum mönnum þegar þeir fá föst leikatriði. Allir leikmenn í liðinu verða að hjálpast að við að verjast. Það var ekki auðvelt að vinna þá í fyrri leiknum, þeir eru mikið baráttulið með sterkt hugarfar og við þurfum að vera tilbúnir fyrir líkamlega baráttu."
Athugasemdir