sun 16. janúar 2022 16:39
Brynjar Ingi Erluson
Klopp: Það er ótrúlega óþægilegt að spila gegn Brentford
Jürgen Klopp var ánægður með sigurinn
Jürgen Klopp var ánægður með sigurinn
Mynd: EPA
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var ánægður með framlagið hjá leikmönnunum í 3-0 sigrinum á Brentford á Anfield í dag en þetta var þolinmæðisvinna fyrir enska stórliðið.

Liverpool skapaði sér fín færi í fyrri hálfleiknum en fyrsta markið kom ekki fyrr en undir lok hálfleiksins er Fabinho skallaði hornspyrnu Trent Alexander-Arnold í netið á fjærstönginni.

Mikilvægt mark sem hjálpaði heimamönnum inn í síðari hálfleikinn.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá er ótrúlega óþægilegt að spila gegn Brentford. Liðið spilar yfirleitt öðruvísi fótbolta en það er ótrúlega erfitt svona miðað við hvernig þeir spila gegn okkur."

„Það voru svo mörg augnablik þar sem boltinn var í loftinu og við urðum að byrja spila fótbolta um leið og hann lenti í grasinu. Þetta var ekki alltaf reiprennandi en stundum er það þannig og þá geta föstu leikatriðin boðið upp á opnunarmark. Það var raunin í dag og við hefðum getað skorað fleiri fyrir það mark en næstu tvö mörkin á eftir voru stórkostleg."

„Því miður fyrir Oxlade-Chamberlin þá snéri hann sig á ökkla en vonandi er það ekki alvarlegt. Það var það eina sem setti skugga á leikinn."

„Föstu leikatriðin voru mjög góð í dag. Þú þarft þolinmæði og mátt ekki missa einbeitingu eða vera kærulaus. Þú verður að spila af mikilli þrá þó svo þú náir ekki beint áttum. Við þurftum að skipta á milli, spila hratt og gera alla þessa hluti. Við stjórnuðum þessu svo í seinni hálfleiknum og það er gott."

„Þeir breyttu um leikkerfi þegar við komumst 1-0 yfir og tóku meiri áhættur. Þeir voru með fleiri leikmenn á milli línanna. Við lentum tivsar í því þar sem við vorum í erfiðleikum með það en þannig er það. Maður verður að aðlagast og það gerist. Við náðum að aðlagast vel og eftir það náðum við stjórn á leiknum."

„Það er öllum boðið að skora mörk og það er alltaf þanig en strákarnir gerðu vel. Þeir lögðu sig mikið fram og það er það sem við verðum að gera. Þú verður að fara á ná í sigurinn og strákarnir gerðu það,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner