Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 16. september 2019 10:22
Magnús Már Einarsson
Pétur Viðars ósáttur: Hefði einhver annar fengið þetta rauða spjald?
,,Þetta var algjört óviljaverk"
Pétur labbar inn í klefa eftir að rauða spjaldið fór á loft.
Pétur labbar inn í klefa eftir að rauða spjaldið fór á loft.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur í baráttu við Guðmund Andra Tryggvason í leiknum á laugardaginn.
Pétur í baráttu við Guðmund Andra Tryggvason í leiknum á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér fannst þetta svolítið dæma sig sjálft. Ég veit ekki hvað ég átti að gera annað en stíga til jarðar þegar maðurinn er fyrir aftan mig. Mér fannst þetta rosalega svekkjandi og ósanngjarnt. Þetta var algjört óviljaverk," sagði Pétur Viðarsson, varnarmaður FH, við Fótbolta.net í dag.

Pétur fékk rauða spjaldið eftir klukkutíma í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á laugardag þar sem Víkingur vann FH 1-0. Pétur fékk rauða spjaldið skömmu eftir að Víkingur komst yfir. Pétur var í baráttu við Guðmund Andra Tryggvason sem féll til jarðar. Þegar Guðmundur var í jörðinni lenti Pétur með fótinn á bringu hans. Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, gaf Pétri rauða spjaldið eftir að hafa fengið skilaboð frá Ívari Orra Kristjánssyni fjórða dómara.

„Dómarinn kemur hlaupandi með rautt spjald og veit ekki hvað hann er að gefa rautt spjald fyrir. Hann spurði ekki Ívar hvað þetta var. Það var aldrei ásetningur í þetta enda sést það á myndbandinu að ég horfi á boltann allan tímann."

„Það eru margir búnir að tjá sig og segja að þetta sé heimskulegt. Það er búið að brjóta á mér í þessu atviki og ég þarf að stíga til jarðar einhversstaðar og ég horfi ekki hvar ég stíg."

„Þetta er rosalega stór dómur í svona stórum leik. Umræðan er komin í það hvað við vorum lélegir en það er rosalega erfitt að vera manni færri og marki undir. Ég vil samt óska Víkingum til hamingju með titilinn. Þeir eru búnir að vera öflugir í sumar, eru með flott lið og eru vel þjálfaðir."


Pétur telur að margir aðrir leikmenn hefðu sloppið við rautt spjald í þessum aðstæðum. „Hefði einhver annar fengið þetta rauða spjald? Ég spyr mig að því án þess að ætla að spila mig sem fórnarlamb. Ég er viss um að það eru fleiri aðilar á þessum velli sem hefðu ekki fengið þetta spjald. Mér fannst þetta það skrýtið. Mér fannst það segja ýmslegt þegar Sölvi (Geir Ottesen) fyrirliði Víkings kemur til mín eftir leik og segir að hann hafi aldrei séð jafn mikið kjaftæði."

Sjá einnig:
Mjög skiptar skoðanir á rauða spjaldinu
Óli Kristjáns um rauða spjaldið: Gjörsamlega glórulaus ákvörðun
Sjáðu markið og rauða spjaldið úr bikarúrslitaleiknum
Athugasemdir
banner
banner
banner