þri 17. september 2019 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Sky Sports 
Matic viðurkennir pirring: Reyni að sannfæra þjálfarann
Mynd: Getty Images
Nemanja Matic, miðjumaður Manchester United, viðurkennir að hann sé orðinn pirraður á því að sitja á varamannabekknum.

Hinn 31 árs gamli Matic var keyptur til United frá Chelsea fyrir 40 milljónir punda sumarið 2017. Hann var mikilvægur hjá Jose Mourinho, en undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hefur hann spilað minna.

Hann byrjaði sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar Man Utd vann Leicester 1-0 um liðna helgi. Hann byrjaði þar sem Paul Pogba var meiddur.

„Auðvitað hefur þetta verið pirrandi," segir Matic. „Ég vil spila, ég gef alltaf mitt besta fyrir liðið."

„Þjálfarinn velur liðið og þegar þú ert á bekknum þá ertu ekki ánægður. Ég er að reyna að sannfæra hann um að velja mig í liðið. Tímabilið er langt."

„Ég spilaði gegn Leicester og þá unnum við. Ég er ánægður með það og við munum sjá í framtíðinni hvað þjálfarinn velur."

Í slúðurpakkanum í gær var Matic orðaður við Juventus og spurning er hvað framtíðin ber í skauti sér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner