Þriðjudaginn 22. júlí og miðvikudaginn 30. júlí mætast Breiðablik og Lech Poznan í 2. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Fyrri leikur liðanna fer fram í Poznan og seinni leikurinn á Kópavogsvelli.
Í leikmannahópi Lech er Gísli Gottskálk Þórðarson en hann er uppalinn hjá Breiðabliki. Fótbolti.net ræddi við leikmanninn um komandi einvígi.
Gísli glímir við meiðsla á ökkla og er tæpur fyrir einvígið, en stefnir á að taka þátt.
Í leikmannahópi Lech er Gísli Gottskálk Þórðarson en hann er uppalinn hjá Breiðabliki. Fótbolti.net ræddi við leikmanninn um komandi einvígi.
Gísli glímir við meiðsla á ökkla og er tæpur fyrir einvígið, en stefnir á að taka þátt.
„Mér líst mjög vel á einvígið, gaman fyrir mig að fá að fara til Íslands og spila ef ég verð klár. Svo horfði ég á leikina á móti Egnatia og sá að þetta verða hörkuleikir og það eru allir meðvitaðir um það. Það er alltaf erfitt að spila við Blikana á Kópavogsvelli og þeir sýndu það svo sannarlega á móti Egnatia," segir Gísli Gotti.
„Það er mjög gaman að sjá liðið mitt erlendis mæta uppeldisfélaginu. Þá er gaman að hugsa til baka þegar maður var krakki að spila með Blikum og er svo núna að fara spila á móti þeim í Meistaradeildinni."
Gísli var hjá Víkingi síðustu tímabil og sprakk út á síðasta tímabili þegar Víkingur fór alla leið í umspil um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar. Hvernig eru tilfinningarnar til uppeldisfélagsins?
„Maður ber náttúrlega hlýjar tilfinningar til uppeldisfélagsins síns og ég á margar góðar minningar þaðan. En svo þarf bara að hætta að spá í því á meðan maður spilar gegn þeim."
Gísli var seldur til Lech í janúar og var í nokkuð stóru hlutverki í liðinu þangað til hann varð fyrir axlarmeiðslum í vetur. Lech varð pólskur meistari í vor.
„Ég er mjög sáttur með skrefið og tímann hjá Lech hingað til. Eftir allt ævintýrið með Víkingi þá var tími á að taka næsta skref og ég er mjög þakklátur fyrir tímann og tækifærin sem ég fékk í Víkinni.
Ég byrjaði strax að spila hlutverk hjá Lech og það hjálpaði mér mikið að komast strax inn í þetta."
„Upplifunin af liðinu, borginni og öllu þessu helsta hefur verið góð. Deildin er mjög sterk og svo er bara frábært að búa í Póllandi. Þannig að heilt yfir, þrátt fyrir meiðslin, er ég ánægður með tímann hérna hingað til en það verður gott að komast aftur á völlinn loksins," segir miðjumaðurinn.
Athugasemdir