
„Mér fannst við bara vera með öll völd á vellinum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Við vinnum því hérna sanngjarnan 3-1 sigur og hefðum í raun átt að skora fleiri mörk. “ Sagði Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur sem var mættur til viðtals við Fótbolta.net eftir 3-1 sigur Keflavíkur á Dalvík/Reyni fyrr í dag.
Lestu um leikinn: Keflavík 3 - 1 Dalvík/Reynir
Keflavík tók forystuna í fyrri hálfleik en fékk smá kjaftshögg í upphafi síðari hálfleiks þegar gestirnir jöfnuðu. Um viðbrögð liðsins í framhaldinu sagði Haraldur.
„Mér fannst við bara svara því mjög vel. Við héldum áfram að láta boltann rúlla kanta á milli og sköpum opnanir og fullt af góðum stöðum. Við hefðum bara getað nýtt þessar stöður og færi ennþá betur.“
Mihael Mladen sem kom til Keflavíkur í glugganum hefur farið vel af stað í markaskorun fyrir liðið. Hann er kominn með fjögur mörk í fyrstu sex leikjum sínum með liðinu og þar af tvö þeirra í dag.
„Ég er búinn að vera ótrúlega ánægður með hann síðan hann kom. Hann er duglegur leikmaður, góður í spilinu og er mikill refur í teignum.“
Næst á dagskrá hjá Keflavík er heimsókn í Laugardalinn þar sem liðið mætir Þrótti. Hvernig leggst verkefnið í Harald?
„Það verður bara erfiður leikur. Það eru allir leikir erfiðir í þessu og þetta er bara nýtt verkefni.“
Sagði Haraldur en allt viðtalið má sjá hér að ofan
Athugasemdir