„Gífurleg vonbrigði, gífurleg vonbrigði hvernig við skoruðumst undan ábyrgð í mörkunum sem við fáum á okkur og náum einfaldlega ekki að gera betur en þetta þrátt fyrir að vera orðnir manni fleiri“ sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, eftir 0-2 tap gegn Fylki í Kórnum í kvöld.
Lestu um leikinn: HK 0 - 2 Fylkir
„Mér fannst vanta upp á að við bærum ábyrgð á þeim hlutverkum sem okkur var ætlað og það er óásættanlegt að, í fyrsta lagi, sé hægt að labba svona í gegn um okkur eins og í fyrsta markinu og svo að það sé maður frír þegar við erum fleiri. Sama í seinna markinu að hann geti fengið þetta skot á markið, það eru bara slæm mistök í varnarleiknum“ hélt hann svo áfram.
Það hefur verið ákveðið mynstur hjá HK að mæta vel gíraðir í leiki á móti liðunum sem eru ofar í töflunni en mæti síðan varla til leiks í leikjum gegn liðunum í kring um sig. Fannst Ómari það raunin í dag?
„Mér fannst ákefðin og gírunin ekkert svo slæm en sofandaháttur í varnarleiknum sem orsakar þessi mörk eru í rauninni mistökin sem verða okkur að falli. Mér fannst orkustigið fínt við leystum fyrri hálfleikinn að mörgu leyti eins og við vildum og mér fannst við allt í lagi en alls ekki nóg og góðir til þess að eiga skilið að sigra held ég.“
Það komu fréttir þess efnis í vikunni að KR hafi kært niðurstöðu KSÍ ,að fresta ætti leik HK og KR, til aga- og úrskurðarnefndar og vildu fá dæmdan 3-0 sigur eftir stóra stangarmálið fyrr í þessum mánuði þar sem leikur liðanna fór ekki fram vegna brotins marks í Kórnum. Aðspurður hver skoðun HK sé á þessu segir Ómar:
„Já ég held að það hafi allir skoðun á þessu en ekkert sem við getum eytt tíma okkar í, við í teyminu eða í liðinu geta verið að eyða tíma í að velta fyrir okkur. Mér finnst þetta óskiljanleg framvinda á þessu máli og ég geri bara ráð fyrir því að spila við þá á fimmtudaginn.“
Nánar er rætt við Ómar í spilaranum hér að ofan.