„Ég er ekki sérstaklega sáttur við spilamennskuna en ég er að sjálfsögðu sáttur við úrslitin," sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA eftir 3-1 sigur á Fjölni í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 3 - 1 Fjölnir
„Það er frábært að ná í þrjú stig, mér fannst við frekar óþolinmóðir þegar við lentum manni fleiri. Við hefðum getað unnið betur úr þessu en við vorum ógnandi síðustu mínúturnar og maður hafði á tilfinningunni að það kæmi mark sem það og gerði. Ég er ánægður með það."
Mario Tadejevic leikmaður Fjölnis fékk að líta rauða spjaldið eftir tæplega klukkutíma leik en ÍA nýtti sér ekki liðsmuninn fyrr en í uppbótartíma.
„Við vorum svolítið óskynsamir með boltann, við vorum að drífa okkur en þetta lagaðist þó þegar leið á leikinn og við fórum að taka betri ákvarðanir og finna mennina úti á vængjunum. Það skiptir engu máli í dag, við náðum þessum sigri sem þurfti og það var heldur betur mikilvægt. Sérstaklega því Víkingur Ólafsvík vann, gríðarlega mikilvægur sigur, þetta var hálfgerður sex stiga leikur gegn Fjölni og ég er fyrst og fremst í skýjunum með það."
Á 85. mínútu vildi Garðar Gunnlaugsson framherji ÍA fá víti en boltinn barst á Ólafur Valur í dauðafæri en Helgi Mikael stöðvaði leikinn vegna meiðsla Garðars.
„Ef ég hef rétt eftir fjórða dómara þá er leikurinn stoppaður útaf höfuðhöggi Garðars. Þá hlýtur að vera eitthvað sem orsakaði það og þá hlýtur að vera einfalt mál að dæma víti. Munar eitthvað um að bíða aðeins með að flauta því Óli Valur er með boltann óáreittur inni í teig. Munar um þessar þrjár sekúndur þannig að hann fái allavega skotið?"
Nánar er rætt við Gulla í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir






















