Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, svaraði spurningum á fréttamannafundi og var spurður út í framtíð Christian Pulisic sem hefur verið orðaður við lánssamning til Manchester United.
Tuchel segist ekki hafa neinn áhuga á því að lána leikmenn út á meðan leikmannahópur félagsins er jafn þunnskipaður og raun ber vitni.
„Ég veit af orðrómunum en ég vil ekki missa neinn úr hópnum. Við vorum 18 manns á síðustu tveimur æfingum og það er allt í lagi þegar þú spilar einu sinni í viku en ef maður horfir aðeins fram í tímann þá gengur það ekki upp," sagði Tuchel.
„Bráðum munum við spila tvo til þrjá leiki á viku, það leikjaprógram er bara handan við hornið og við munum þurfa breiðan hóp. Við munum þurfa marga gæðaleikmenn til að vera samkeppnishæfir á öllum vígstöðvum.
„Við vitum hvað við höfum og við vitum hverju við erum að leita af. Við getum ekki látið neina leikmenn fara fyrr en nýir menn koma inn."
Pulisic er einn af fjórum kantmönnum hjá Chelsea ásamt Raheem Sterling, Callum Hudson-Odoi og Hakim Ziyech. Tveir síðastnefndu hefur verið orðaðir við brottför frá félaginu í sumar.
Kenedy er einnig samningsbundinn félaginu en ekki talinn vera í áformum Tuchel.