lau 19. september 2020 16:36
Ívan Guðjón Baldursson
Albert og Elmar spiluðu í dag - Oostende vann án Ara Freys
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru þó nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í leikjum víðsvegar um Evrópu í dag.

Í Hollandi spilaði Albert Guðmundsson fyrsta klukkutímann í 1-1 jafntefli AZ Alkmaar gegn PEC Zwolle í efstu deild.

Heimamenn í AZ voru manni færri frá 17. mínútu og lentu svo marki undir skömmu fyrir leikhlé. Albert var tekinn útaf á 63. mínútu og kom jöfnunarmark heimamanna fimm mínútum síðar.

Þetta var fyrsti leikur AZ á nýju tímabili en Zwolle tapaði gegn Feyenoord í fyrstu umferð.

AZ Alkmaar 1 - 1 PEC Zwolle
0-1 C. Leemans ('38)
1-1 M. Boadu ('68)
Rautt spjald: C. Stengs, AZ ('17)
Rautt spjald: T. Lam, Zwolle ('83)

Í Belgíu var Ari Freyr Skúlason ekki með er Oostende lagði OH Leuven að velli. Þetta var annar sigur Oostende í röð.

Í þýsku B-deildinni vantaði Guðlaug Victor Pálsson í leikmannahóp Darmstadt sem tapaði gegn Sandhausen, fyrrum félagi Rúriks Gíslasonar.

Kristrún Rut Antonsdóttir var ónotaður varamaður er Mallbacken tapaði fyrir toppbaráttuliði Hammarby í sænsku B-deildinni.

Að lokum spilaði Theódór Elmar Bjarnason stærsta hluta leiksins er Akhisarspor tapaði gegn Bandirmaspor í tyrknesku B-deildinni.

Elmar og félagar voru óheppnir þar sem þeir voru betra liðið á vellinum en náðu ekki að koma knettinum í netið.

Bandirmaspor 1 - 0 Akhisarspor
1-0 Y. Del Valle ('19)
Rautt spjald: M. Nizam, Akhisarspor ('77)
Athugasemdir
banner
banner
banner