mið 20. maí 2020 14:17
Elvar Geir Magnússon
Mariappa er leikmaðurinn sem greindist með veiruna
Mariappa veit ekki hvar hann smitaðist.
Mariappa veit ekki hvar hann smitaðist.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn Adrian Mariappa hefur stigið fram og opinberað að hann sé leikmaðurinn hjá Watford sem greindist með kórónaveiruna.

Watford staðfesti það í gær að þrír innan félagsins, einn leikmaður og tveir starfsmenn, hefðu greinst jákvæðir eftir sýnatökur.

Mariappa segist undrandi á því að hafa smitast.

„Alveg síðan ég fékk niðurstöðuna á þriðjudag hef ég verið að klóra mér í hausnum og velta því fyrir mér hvernig ég fékk veiruna. Þetta var mjög óvænt því ég hef varla farið út úr húsi, fyrir utan æfingar og göngutúr með börnunum," segir Mariappa.

„Ég hef nánast bara verið heima og haldið mér í formi. Ég lifi mjög rólegum lífstíl, fer ekki í partí og veit ekki hvar ég smitaðist. Mér dettur helst í hug að ég hafi smitast þegar ég pantaði mat."

Allir þrír smituðu einstaklingarnir hjá Watford eru nú komnir í sóttkví þar sem þeir verða í sjö daga áður en þeir fara í aðra sýnatöku.

Samkvæmt 'Project Restart' endurkomuáætluninni er vonast til þess að keppni í ensku úrvalsdeildinni geti hafist aftur 12. júní.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner