Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 20. júní 2021 18:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Stjarnan á skriði og Fylkir kom til baka
Stjarnan er að yfirstíga erfiða byrjun á tímabilinu.
Stjarnan er að yfirstíga erfiða byrjun á tímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagur Dan skoraði þriðja mark Fylkis.
Dagur Dan skoraði þriðja mark Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það eru allir leikir í níundu umferð Pepsi Max-deildarinnar mikilvægir þar sem efstu sex liðin og neðstu sex liðin eru að mætast innbyrðis.

Eftir erfiða byrjun á mótinu eru Stjörnumenn að finna taktinn eða svo virðist alla vega vera.

Stjarnan hefur sótt sjö stig núna í síðustu þremur leikjum sínum, en þeir lögðu HK að velli núna rétt í þessu.

„Hilmar Árni Halldórsson stýrir knettinum auðveldlega í netið eftir fyrirgjöf frá Heiðari Ægissyni frá hægri," skrifaði Arnar Daði Arnarsson í beinni textalýsingu þegar Stjarnan tók forystuna gegn HK á 24. mínútu. Sex mínútum síðar var Emil Atlason á ferðinni með sitt fyrsta mark í sumar.

Forystan var verðskulduð en HK kom sér aftur inn í leikinn á 74. mínútu er Stefan Alexander Ljubicic minnkaði muninn. Arnar Freyr Ólafsson hélt gestunum á lífi er hann varði vítaspyrnu Hilmars Árna mínútu eftir að Stefan skoraði.

HK náði hins vegar ekki að jafna og lokatölur 2-1 fyrir Stjörnuna sem er komin upp í áttunda sæti með tíu stig. HK hefur ekki riðið feitum hesti til þessa í mótinu og er í tíunda sæti með sex stig.

Fylkir kom til baka gegn botnliðinu
Það gengur hvorki né rekur hjá ÍA akkúrat núna, en Skagamenn komust óvænt yfir gegn Fylki eftir fjögurra mínútna leik. „Fyrsta sókn Skagamanna endar í marki. Vinna boltann á miðjunni og spila upp á Viktor sem kemur með stungu sendingu framhjá Orra Svein á Hákon Inga sem skýtur í stöngina en Gísli réttur maður á réttum stað og potar boltanum í autt markið," skrifaði Hafþór Bjarki Guðmundsson er ÍA tók forystuna.

Gísli Laxdal Unnarsson kom ÍA yfir eftir fjögurra mínútna leik. Í kjölfarið hófst þung sókn Fylkis.

Hún skilaði loksins marki á 23. mínútu er Helgi Valur Daníelsson, sem verður fertugur í næsta mánuði, skoraði. Dino Hodzic í marki ÍA hefði átt að gera betur þar.

Staðan var 1-1 í hálfleik en heimamenn kláruðu leikinn snemma í seinni hálfleik. Óskar Borgþórsson skoraði sitt fyrsta mark í keppnisleik með meistaraflokki snemma í seinni hálfleik og eftir tæplega klukkutíma leik bætti Dagur Dan Þórhallsson við marki, 3-1 fyrir Fylki. Aftur var Dino klaufalegur í marki Skagamanna.

Fylkir landaði svo sigrinum þægilega, 3-1. Fylkir er í sjöunda sæti með tíu stig og ÍA á botninum með fimm stig.

Fylkir 3 - 1 ÍA
0-1 Gísli Laxdal Unnarsson ('4 )
1-1 Helgi Valur Daníelsson ('23 )
2-1 Óskar Borgþórsson ('53 )
3-1 Dagur Dan Þórhallsson ('59 )
Lestu nánar um leikinn

Stjarnan 2 - 1 HK
1-0 Hilmar Árni Halldórsson ('24 )
2-0 Emil Atlason ('30 )
2-1 Stefan Alexander Ljubicic ('74 )
2-1 Hilmar Árni Halldórsson ('75 , misnotað víti)
Lestu nánar um leikinn

Leikir kvöldsins:
19:15 Breiðablik - FH
19:15 Keflavík - Leiknir
Athugasemdir
banner
banner
banner