Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 21. mars 2020 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Reyndi að gera allt til þess að spila í Pepsi Max"
Mynd: Ari Sigurpálsson
Andri Fannar.
Andri Fannar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: HK
Mynd: Ari Sigurpálsson
Mynd: Ari Sigurpálsson
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik Fylkis og HK í fyrra.
Úr leik Fylkis og HK í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Lið HK í fyrra.
Lið HK í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sinisa Mihajlovic, stjóri Bologna.
Sinisa Mihajlovic, stjóri Bologna.
Mynd: Getty Images
Ari Sigurpálsson er þessa stundina staddur á Íslandi en hann hefur á þessari leiktíð verið á láni hjá Bologna frá HK.

Ari fékk leyfi til að fara til Íslands fyrir um tveimur vikum síðan og hefur verið í sóttkví síðan. Ari er sautján ára réttfættur vinstri kantmaður. Lánssamningur Ara hjá Bologna rennur út núna í sumar en félagið er með kaupsrétt á leikmanninum.

Einn vetur hjá Breiðabliki en annars alltaf HK
Fótbolti.net heyrði í Ara í vikunni og fór yfir ferilinn til þessa með honum. Við byrjum í yngri flokkunum, hefur Ari alltaf æft með HK?

„Ég byrjaði 4 ára hjá Blikum og var þar einn vetur minnir mig. Ég bjó í HK hverfi og allir vinirnir í HK þannig ég fór yfir í HK og sé alls ekki eftir því," sagði Ari við Fótbolta.net.

Varð 12 ára markmaður í meistaraflokksliði HK í bandý
Ari segir frá því í 'Hinni hliðinni' fyrr í dag að hann hafi tólf ára orðið markvörður hjá meistaraflokksliði HK í bandý. Hvernig kom það til að hann byrjaði í bandý?

„Ég held að HK sé eina íþróttafelagið með bandý deild á Íslandi og það voru nokkrir vinir mínir sem prófuðu þetta og ég ákvað að tékka á þessu líka."

„Ég var ekki með góða tækni í bandý og fannst ekki gaman að spila úti og því ákvað ég að prófa að fara í markið. Þar fékk ég varla á mig mark að mig minnir."

„Ég var í rúm tvö ár í bandý og svo var ég í handbolta í átta ár en ákvað að einbeita mér alveg að fótboltanum því ég hafði mestan áhuga á honum."


Varði víti í 3. flokki
Önnur saga sem Ari rifjaði upp í 'Hinni hliðinni' var frá því í 3. flokki. Ari var á skýrslu sem varamarkvörður og kom inn á. Honum tókst að verja víti en hvernig kom það til að hann var varamarkvörður?

„Þetta var bara eitthvað djók minnir mig. Ég var ekkert að spila með mínum aldurshópi og saknaði þess að vera með þeim í stemningunni."

„Ég fékk að vera varamarkmaður og svo brýtur markmaðurinn okkar á andstæðingi og dómarinn gefur rautt og víti. Ég varði vítið en fékk samt á mig mark seinna í leiknum og við töpuðum því miður."


Vann lengi að því að fá fyrsta tækifærið í efstu deild
Hvernig voru fyrstu skrefin með meistaraflokki?

„Þau voru mjög lærdómsrík. Ég fékk að æfa með þeim snemma á undirbúningstímabilinu fyrir timabilið 2019 en ekki reglulega samt. Ég fékk held ég að spila tvo leiki í Bose-bikarnum en svo ekkert meir, kannski var ég ekki alveg tilbúinn."

„Ég var pirraður að ég fengi ekki fleiri sénsa með meistaraflokki því ég var að standa mig vel með 2. flokki. Ég æfði mjög mikið á þessum tímapunkti og reyndi að gera allt til þess að spila í Pepsi Max, ég gerði það að mínu markmiði."

„Ég fékk svo aftur tækifæri þegar það komu meiðsli í hópinn og ég nýtti það vel fannst mér. Ég var í hóp móti KR í maí og það var fyrsti leikur sem ég var á leikskýrslu í efstu deild. Ég náði að halda mer í hópnum og var alltaf að bæta mig í gegnum fyrrasumar. Ég var oft í hóp en kom aldrei inná."

„Tækifærið kom á móti Fylki í ágúst. Ég fékk fimm mínútur og það gekk vel hjá mér, var nálægt því að skora. Næsta umferð eftir það var á móti Víkingi. Það var gaman að fá strax aftur mínútur. Ég og Emil Atla komum báðir inná þá á 70 min."

„Það var mjög gaman að koma inn í þennan hóp og það eru fyndir karakterar í liðinu og mikil stemning, samt koma þeir allir vel fram við ungu leikmennina og ég lærði mikið á mörgum þeirra."


Sagði Brynjar Björn Gunnarsson (aðalþjálfari HK) eitthvað við Ara áður en hann kom inn á í fyrsta leiknum?

„Brynjar sagði ekki neitt við mig að mig minnir, nema í hvaða stöðu ég væri að fara spila. Þetta var mjög skemmtileg stund að spila fyrsta leikinn og sérstaklega þegar þú ert búinn að vinna lengi að því."

Fór til Norwich, Rangers og oft til Brighton á reynslu
Fréttaritari forvitnaðist um reynsluferðir Ara áður en Bologna krækti í hann. Hvaða lið voru búin að skoða leikmanninn?

„Ég fór á reynslu til Norwich, Brighton og Glasgow Rangers. Þegar ég fór til Norwich var ég mjög ungur og það gekk rosalega vel og mér var boðið aftur en svo urðu breytingar á þjálfurum og stjórn svo ekkert varð úr því."

„Ég fór til Brighton eftir að þeir sáu mig á myndbandi hjá Norwich. Menn frá Brighton komu svo og sáu mig í U15 landsleik og buðu mér í kjölfarið út á reynslu."

„Það gekk hrikalega vel hjá þeim. Ég fór þangað fjórum sinnum og spilaði á Rey cup með þeim. Ég fór lika til Rangers þrisvar en meiddist á í tvö skipti á meðan ég var hjá þeim."


Bologna vissi af áhuga Rangers
Hvað kom til að Bologna fékk Ara til sín?
„Þetta með Bologna kom eftir Norðurlandamót í fyrrasumar og þeir vissu af Rangers vildu fá mig líka. Þess vegna gerði félagið strax lánstilboð með kauprétt."

„HK neitaði nokkrum tilboðum frá þeim og þetta var allt mjög skrýtið. Þegar það voru sirka tveir dagar eftir að glugganum ná Bologna og HK saman um kaupverð og þá var ég einmitt á leiðinni til Skotlands að spila einn leik með Rangers."


Kom til greina að stökkva ekki út til Bologna?
„Ég ætlaði fyrst að vera áfram á Íslandi og spila bara meistaraflokksbolta en mér fannst Bologna hrikalega skemmtilegt tækifæri, tímabilið á Íslandi að verða búið og ég sá gott tækifæri á að bæta mig um veturinn hjá þessu félagi.

„Auk þess var þetta gott tækifæri til að kynnast þessum atvinnumanna heim en á sama tíma þurfti ég ekki að skuldbinda mig næstu þrjú árin. Á þessum tíma fékk ég einnig fyrirspurninr frá liðum frá Englandi og Skandinavíu auk annarra félaga á Ítalíu."


Mikil aðstoð frá Andra Fannari og pabba hans
Hvernig hefur verið að taka veturinn úti hjá Bologna?

„Tíminn hjá Bologna hefur verið geggjaður og framar væntingum. Ég er að bæta mig mikið í öllu og er orðinn bara miklu betri fótboltamaður á þessum rúmum sex mánuðum, bæði taktískt og tæknilega."

„Þetta var rosalega erfitt fyrstu mánuðina því ég fékk ekki leikheimild fyrr en eftir rúma tvo mánuði og var ekki að æfa 100 prósent með liðinu, auðvitað var líka sjokk að flytja að heiman frá fjölskyldu og vinum en ég flutti inn til Andra Fannars og pabba hans og þeir gerðu þetta léttara fyrir mig og hafa hjálpað mer mikið."

„Eftir að ég fékk leikheimild gekk allt rosalega vel, ég var byrjaður að spila, skora og leggja upp með 17 ára liðinu. Ég byrjaði að æfa með þeim lika en svo eftir að ég spilaði fleiri leiki og var búinn að venjast þessu var ég að æfa oftar með varaliðinu og fékk líka nokkrar æfingar með aðalliðinu sem var rosalega reynslumikið."


Hvernig sér Ari muninn á að æfa með unglingaliði/varaliði Bologna og meistaraflokki HK?

„Það er mikill munur á HK og Bologna, mesti munurinn liggur líklega í æfingunum. Hjá Bologna er verið að kenna þér mikið hvernig á að spila fótbolta og það eru rosalega margar og langar taktískar æfingar, þær eru kannski ekki skemmtilegustu æfingarnar er maður lærir rosalega mikið af þeim."

Í hverju hefur Ari bætt sig mest?
„Ég er ánægður með hvernig ég hef þróast sem leikmaður hérna. Ég er sérstaklega ánægður með bætingu í varnarleik og taktískt."

Ítalskan öll að koma og fjarnám frá MK
Hvernig hefur gengið að læra ítölskuna?

„Ítalskan og námið gengur ágætlega, við mætum í tíma og lærum ítölsku. Fyrst var þetta erfitt fyrir mig útaf tungumálinu en þegar þú byrjar að læra fleiri og fleiri orð geturðu byrjað að setja saman orð og setningar. Ég skil ítölsku á vel en þarf að bæta mig að tala hana."

Hvernig er með námið? Er Ari í fjarnámi frá Íslandi?
Ég er í fjarnámi frá afrekssviði MK og næ í nokkrar einingar þaðan."

Fordæmalausir tímar
Hvernig er málum háttað hjá Ara þegar kemur að kórónaveirunni? Er hann þessa stundina úti hjá Bologna?

„Covid 19 hefur haft mjög mikil áhrif á Ítalíu og þetta er hræðilegt ástand. Við hættum að æfa snemma í mars útaf veirunni og maður var bara að æfa sjálfur."

„Svo þróaðist þetta hratt og 11 mars segja þeir að við munum ekkert æfa næsta mánuðinn þannig ég gæti farið heim ef ég vildi. Ég sagði já við því og þeir bókuðu næsta flug heim 12 mars og ég er núna í sóttkvi heima í Kópavogi."


Bologna og Ari þurfa að taka ákvörðun
Bolgona er með kauprétt í lánssamningi sínum við HK. Hvernig lítur staðan út í dag?

„Það kemur í ljós bráðum hvar ég spila á næsta timabili. Það gæti orðið annað tímabil með Bologna. Það gæti einnig verið að ég spili heima í HK í sumar, kannski jafnvel á láni. Ég þarf að taka ákvörðun og auðvitað Bologna líka," sagði Ari að lokum.

Sjá einnig:
Hin hliðin - Ari Sigurpálsson (HK/Bologna)
Athugasemdir
banner
banner