„Það er allt í toppstandi... ég er óvanur þessu og ég ætla að njóta til hins ítrasta," segir Sævar Atli Magnússon sem er með A-landsliðshópnum í München í Þýskalandi. Þar undirbýr liðið sig fyrir fyrstu leikina í undankeppni EM 2024.
Sævar hefur spilað tvo A-landsleiki en það voru vináttulandsleikir í janúar á þessu ári. Hann hefur verið að standa sig vel með Lyngby í Danmörku og fékk kallið í þetta verkefni.
Sævar fékk vont höfuðhögg í leik með Lyngby um liðna helgi og það þurfti að sauma átta spor við augabrún hans.
„Átta spor, hressandi. Þetta var aðeins of stór skurður og það verður áhugavert að sjá hvernig örið verður. Það var svekkjandi að fara út af," sagði Sævar.
Hann viðurkennir að hafa óttast það að hann myndi missa af landsliðsverkefninu.
„Ég fæ höggið og ætlaði að standa upp en sé að það fossblæðir. Læknateymið kemur inn á og það fyrsta sem ég heyri er 'hann er ekki að koma aftur inn á, hann er ekki að koma aftur inn á'. Mér fannst ég vera góður og ég vildi fara aftur inn á. En svo kom þessi hugsun 'fyrst ég er að fara út af þá er ég að fara að missa af landsliðsverkefninu, týpýskt'. Síðan var ég smá hræddur 20 mínútum eftir höggið að fá heilahristing. Ég var mjög stressaður en sem betur fer gerðist ekkert," sagði Sævar.
Hann segir að andinn sé mjög góður í hópnum fyrir leikinn á móti Bosníu. Honum líst hrikalega vel á verkefnið en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Sjá einnig:
Lemstraðir frá Lyngby
Athugasemdir