Stjarnan tapaði í kvöld sínum fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni í sumar þegar liðið tók á móti toppliði Vals í Garðabæ.
Valur lék á als oddi í fyrri hálfleiknum. Patrick Pedersen kom Val yfir strax á þriðju mínútu og hann var aftur á ferðinni á 17. mínútu þegar hann skoraði af vítapunktinum.
Þá var röðin komin að Aroni Bjarnasyni. Hann skoraði á 20. mínútu og bætti við öðru marki sínu á 31. mínútu eftir undirbúning frá Patrick Pedersen. „ÉG ER EIGINLEGA ORÐLAUS HÉRNA. ARON BJARNASON AÐ SKORA FJÓRÐA MARK VALSMANNA," skrifaði Anton Freyr Jónsson í beinni textalýsingu.
Valur sýndi sannkallaða Íslandsmeistaraframmistöðu í fyrri hálfleiknum og Birkir Már Sævarsson gerði fimmta markið áður en flautað var til hálfleiks.
Hinn efnilegi Sölvi Snær Guðbjargarson náði aðeins að laga stöðuna fyrir Stjörnuna í seinni hálfleiknum, en þeir komust ekki langt og lokatölur 5-1 fyrir Val.
Valur er á toppnum í Pepsi Max-deildinni með átta stiga forystu á FH, sem á leik til góða. Stjarnan er í þriðja sæti með 24 stig, 13 stigum minna en Valur, en Garðbæingar eiga þó tvo leiki til góða.
FH og KR unnu á útivelli
Það voru tveir aðrir leikir að klárast í deild þeirra bestu hér á landi núna fyrir stuttu. KR og FH fóru á útivöll og tóku þrjú stig.
KR fór í Kópavoginn og mætti þar Breiðabliki. Þar komust Íslandsmeistararnir yfir eftir tíu mínútur. Ægir Jarl Jónasson átti mjög góðan leik þegar KR vann Breiðablik í bikarnum á dögunum og hann skoraði fyrsta markið í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn var fjörugur og Blikar hefðu hæglega getað jafnað metin, en staðan í hálfleik var 1-0 fyrir KR.
Á 76. mínútu vildu Blikar fá vítaspyrnu þegar Thomas Mikkelsen fór niður í teignum en ekkert var dæmt. Stuttu síðar gerði KR út um leikinn þegar Viktor Örn Margeirsson potaði boltanum í eigið net eftir slæm mistök frá Elfari Frey Helgasyni.
Liðin eru í fjórða og fimmta sæti með 23 stig, en KR á leik til góða á Breiðablik.
Í Árbæ fór FH með þægilegan sigur af hólmi. Eftir markalausan fyrri hálfleik mættu FH-ingar af krafti í seinni hálfleikinn og skoraði Björn Daníel Sverrisson tvö mörk á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks.
Ólafur Karl Finsen gerði þriðja markið stuttu eftir annað mark Björns, en Arnór Gauti Ragnarsson minnkaði muninn fyrir Fylki í 3-1 nánast um leið og Ólafur Karl hafði skorað fyrir FH.
Á 68. mínútu komst FH í 4-1 þegar Ragnar Bragi Sveinsson skoraði sjálfsmark, en þarna höfðu verið skoruð fjögur mörk á níu mínútum og mikið fjör.
Leikurinn róaðist hins vegar eftir þetta og lokatölur 4-1 fyrir FH sem er eins og áður kemur fram í öðru sæti. Fylkir er í sjötta sæti með 22 stig.
Breiðablik 0 - 2 KR
0-1 Ægir Jarl Jónasson ('10 )
0-2 Viktor Örn Margeirsson ('84 , sjálfsmark)
Lestu nánar um leikinn
Stjarnan 1 - 5 Valur
0-1 Patrick Pedersen ('3 )
0-2 Patrick Pedersen ('17 , víti)
0-3 Aron Bjarnason ('20 )
0-4 Aron Bjarnason ('31 )
0-5 Birkir Már Sævarsson ('33 )
1-5 Sölvi Snær Guðbjargarson ('62 )
Lestu nánar um leikinn
Fylkir 1 - 4 FH
0-1 Björn Daníel Sverrisson ('48 )
0-2 Björn Daníel Sverrisson ('59 )
0-3 Ólafur Karl Finsen ('61 )
1-3 Arnór Gauti Ragnarsson ('64 )
1-4 Ragnar Bragi Sveinsson ('68 , sjálfsmark)
Lestu nánar um leikinn
Önnur úrslit:
Pepsi Max-deildin: Öruggur sigur ÍA á Gróttu
Athugasemdir