Alonso, Neto, Eze, Greenwood, Ramaj, Alli, Son og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 22. september 2023 23:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Vonandi gefur þetta okkur þá trú að við getum gert ýmislegt"
Steini var sáttur með sigurinn.
Steini var sáttur með sigurinn.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Góður sigur hjá stelpunum okkar.
Góður sigur hjá stelpunum okkar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Glódís Perla gerði sigurmarkið.
Glódís Perla gerði sigurmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Næsti leikur er gegn Þýskalandi.
Næsti leikur er gegn Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var að vonum eftir sigur gegn Wales í fyrsta leik í Þjóðadeildinni. Stelpurnar okkar mættu á Laugardalsvöll og unnu þar sterkan 1-0 sigur.

„Ég er bara ánægður að vinna," sagði Þorsteinn á fréttamannafundi að leik loknum. „Fótbolti er úrslitamiðaður og þetta snýst alltaf um þessi þrjú stig í lokin. Ég er bara sáttur við það. Varnarleikurinn var góður heilt yfir. Við vorum kannski í brasi í ákveðnum hlutum. Það vantaði ró á boltann oft. Við höfðum meiri tíma en leikmennirnir voru að gefa sér. Það er það einna helst sem við þurfum að laga. "

„Sigur nærir. Íþróttir eru þannig að sigur er nærandi og gefur manni alltaf sjálfstraust, 1-0 sigrar eru oft rosalega sætir. Það er pressa á þér og þú nærð að klára það. Vonandi gefur þetta okkur þá trú að við getum gert ýmislegt sem lið. Þetta var liðssigur"

Teiknað upp
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði sigurmark Íslands í fyrri hálfleiknum eftir hornspyrnu sem var tekin stutt. Þetta var teiknað upp á æfingasvæðinu.

„Við vorum búin að teikna þetta upp á æfingu, að setja boltann á nærsvæðið og við vildum fá Glódísi þar. Það gekk upp í sjálfu sér. Þetta var nákvæmlega eins og við vildum hafa þetta," sagði Steini um markið.

Það vakti athygli að Ólafur Pétursson var mikið að hlusta á eitthvað í gegnum heyrnartól í leiknum.

„Óli er með Tom í eyranu, leikgreinanda hjá okkur. Það eru taktískir hlutir sem hann kemur með. Hann er hærra uppi. Maður sér voðalega illa á hliðarlínunni," sagði Steini.

Á ég að tjá mig eitthvað um það?
Steini var svo spurður út í stöðuna á leikmönnum eftir leikinn. Glódís fékk högg undir lokin en það virtist ekki alvarlegt. „Ég hef ekki hugmynd um það, ég er ekki búinn að hitta leikmenn enn. Þær eru alltaf að skrifa á eitthvað þarna úti," sagði Steini en leikmenn höfðu þá verið að gefa áritanir.

Mætingin á völlinn í kvöld var ekki sérlega góð, en stemningin var ágæt.

„Á ég að tjá mig eitthvað um það?" sagði Steini aðspurður út í mætinguna. „Auðvitað er ég sáttur við þau sem mæta en ég vil sjá fleiri. Maður er ánægður með stuðninginn á vellinum en ég vil sjá fleiri á landsleikjum hjá kvennalandsliðinu. Það er eitthvað sem við verðum að gera betur í."

Sögulegur sigur
Næsti leikur er gegn Þýskalandi ytra. Steini sagði að það hefði ekki komið sér á óvart að Danmörk hefði lagt Þjóðverja að velli í dag, en hann býst við afar erfiðum leik í Bochum.

„Ef við mætum sem gott lið og fáum góða frammistöðu, þá eigum við möguleika. Þýska liðið er gott og þetta verður hörkuleikur. Það er ekki að hjálpa okkur endilega að þær tapi. Maður veit ekki hvert þetta fer þegar svona stórt lið tapar fyrsta leik í keppni. Þær áttu erfitt HM og maður veit ekki hvað er að gerast þarna."

„Vonandi gefur þessi leikur okkur það mikið að við höfum trú á því að við getum gert eitthvað flott þarna."

Sigurinn í kvöld var sögulegur. Þetta er í fyrsta sinn þar sem íslenskt landslið vinnur leik í Þjóðadeildinni en karlalandsliðið lék sinn fyrsta leik í keppninni árið 2018 og hefur ekki enn unnið leik í keppninni. Þetta er fyrsta útgáfan af Þjóðadeild kvenna og fyrsti leikurinn sem íslenska kvennalandsliðið spilar í keppninni.

„Maður vill vinna fótboltaleiki og stundum þarf maður að fara leiðir sem eru ekki þær fallegustu. Viljinn til að vinna var til fyrirmyndar. Við getum verið stolt að vera fyrst til að vinna leik í Þjóðadeildinni, A-deild meira að segja líka," sagði Steini undir lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner