Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   mið 23. ágúst 2023 22:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Óskar Hrafn: Algjörlega lygilegt að völlurinn sé leyfður
,,Þurfum að sýna allar okkar bestu og þroskuðustu hliðar á morgun"
Ég upplifi núna ekkert nema eftirvæntingu og tilhlökkun í liðinu að spila leikinn á morgun
Ég upplifi núna ekkert nema eftirvæntingu og tilhlökkun í liðinu að spila leikinn á morgun
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við erum með lækni, sjúkraþjálfara og styrktarþjálfara sem eru betur að sér í þessum fræðum en ég' - Eyjólfur Héðinsson er örugglega með góð ráð.
'Við erum með lækni, sjúkraþjálfara og styrktarþjálfara sem eru betur að sér í þessum fræðum en ég' - Eyjólfur Héðinsson er örugglega með góð ráð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur er klár í slaginn eftir að hafa misst af síðasta leik.
Höskuldur er klár í slaginn eftir að hafa misst af síðasta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þeir hljóta að hafa góða og gilda ástæðu fyrir því að leyfa leikjum að fara fram hér
Þeir hljóta að hafa góða og gilda ástæðu fyrir því að leyfa leikjum að fara fram hér
Mynd: Getty Images
Alexander Helgi og Ágúst Orri eru fjarri góðu gamni.
Alexander Helgi og Ágúst Orri eru fjarri góðu gamni.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Arnór Sveinn er að koma til baka.
Arnór Sveinn er að koma til baka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta er bara hluti af því að þroska hópinn, eitthvað sem við verðum að geta ráðið við, klárlega ekki eitthvað sem við getum stjórnað og er bara hluti af þessu
Þetta er bara hluti af því að þroska hópinn, eitthvað sem við verðum að geta ráðið við, klárlega ekki eitthvað sem við getum stjórnað og er bara hluti af þessu
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Breiðablik mætir á morgun FC Struga í fyrri leik liðanna í umspili fyrir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Leikurinn fer fram í Norður-Makedóníu og svo verður leikið á Kópavogsvelli eftir viku.

Þjálfari Blika, Óskar Hrafn Þorvaldsson, var nokkuð léttur þegar fréttamaður náði tali á honum í kvöld. Þjálfarinn var nýbúinn að bola burt engisprettu úr hótelherbergi sínu.

„Það er mjög heitt, um 30 stig og vel rakt. Við spilum klukkan 17:00 á morgun, það verður mjög heitt og sólin verður ekki farin niður; það eru engin flóðljós á vellinum. Þetta er alvöru sveitavöllur og í raun algjörlega lygilegt að hann sé leyfður; fjögurra laufa smárar á vellinum. Þetta liggur við að vera völlur eins og í Ásbyrgi eða eitthvað," sagði Óskar.

Það er vonandi fyrir Blikana úr Smáranum að þeir nái að nýta smárana á vellinum þegar þeir spila á morgun.

Sjá einnig:
Heimavöllur mótherja Breiðabliks ekki löglegur

Spila annað hvort stutt eða langt
Fyrir viðtalið sá fréttamaður viðtal við fyrirliðann Höskuld Gunnlaugsson sem talaði um að völlurinn væri loðinn.

„Þú spilar ekki langar sendingar meðfram jörðinni, þá fer boltinn bara eitthvað. Menn þurfa annað hvort að spila stutt eða langt, það er ekkert þar á milli. En þetta er eitthvað sem við vissum áður en við héldum út og hefur engin áhrif á okkur."

Hugsar Óskar liðsvalið eitthvað öðruvísi út frá aðstæðum? „Nei, en ég hugsa kannski áherslurnar aðeins öðruvísi."

Þarf góða áhættustjórnun
Má búast við háloftabolta inni á milli í leiknum á morgun?

„Það held ég að sé alveg pottþétt, við verðum að passa okkur á því að þvinga ekki neitt, þvinga ekki sendingar inn á miðju, megum ekki telja okkur þurfa að spila út úr hlutum sem eru erfiðir á velli eins og þessum."

„Struga lifir á því að vinna boltann og sækja hratt. Við verðum að passa okkur að missa ekki boltann á óþægilegum stöðum og þurfum góða áhættustjórnun."

„Ég held að það verði mikilvægast fyrir okkur, vera með góða áhættustjórnun og ekki þvinga neinum sendingum. Við verðum að spila þegar það er 'on' og einnig vera óhræddir að sækja í svæðin sem þeir skilja eftir sig bæði fyrir framan vörnina og aftan hana þegar það á við."


Öflugir framherjar
Hverjir eru helstu styrkleikar Struga?

„Ég myndi halda að styrkleiki þeirra væru senterarnir þeirra. Einn af þeirra sterkustu sóknarmönnum er í banni, en þeir eru með Besart Ibraimi sem er búinn að gera sjö mörk. Hann er gríðarlega öflugur, 36 ára gamall senter, góður að stinga sér og góður að búa til eitthvað úr engu. Hann er rosalega fljótur að snúa vörn í sókn, alltaf klár í að fá boltann og getur bæði skotið með hægri og vinstri. Hann er þeirra hættulegasti maður."

„Annar sóknarmaður, Shabani, er einnig mjög hættulegur. Þeir eru búnir að skora langflest mörk upp úr sóknum þar sem þeir hafa unnið boltann á miðjunni og sótt síðan hratt; skilið lið eftir. Það er það sem við þurfum að varast."

„Þeir eru líkamlega sterkir, eru vel skipulagðir og eru mjög grimmir að pressa bolta þar sem menn snúa baki í völlinn og fá hann; góðir að vinna hann þar. Við þurfum að sýna allar okkar bestu og þroskuðustu hliðar á morgun."


Sjá einnig:
Tveir skorað öll mörk Struga og annar þeirra tekur út bann gegn Blikum

Alexander meiddur og Ágúst Orri veikur
Höskuldur Gunnlaugsson var fjarri góðu gamni gegn Keflavík vegna veikinda. Hvernig er staðan á hópnum fyrir leikinn á morgun?

„Það eru allir klárir nema Alexander Helgi Sigurðarson sem er meiddur heima og Ágúst Orri Þorsteinsson er heima veikur. Annars eru allir klárir. Arnór Sveinn Aðalsteinsson æfði í dag og er klár."

Mjög ánægður með svar hópsins
Er Óskar ánægður með hvernig menn hafa komið til baka og svarað eftir skellinn í Bosníu?

„Já, ég er mjög ánægður með hvernig hópurinn svaraði því. Ég hef áður sagt það, þessi hópur hefur átt auðvelt með að standa upp eftir að hafa verið sleginn niður. Mér finnst menn hafa gert það."

„Einhverjir eru þreyttari en aðrir, búnir að spila meira, en mér finnst hópurinn mjög ferskur núna. Ég upplifi ekkert nema eftirvæntingu og tilhlökkun í liðinu að spila leikinn á morgun."


„Eitthvað sem við verðum að geta ráðið við"
Aðeins aftur að aðstæðunum, finnst þér skrítið að það sé leyft að spila á þessum velli?

„Nei nei, ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti um það. Maður hefur hugsað um að við í Breiðabliki þurftum að skipta um gervigras af því UEFA fór fram á það. Gervigrasið var fullkomlega gott, en boltinn rann of hratt. En það er eins og það séu engar kröfur gerðar á yfirborð grasvalla. Það er að einhverju leyti kannski sérstakt."

„Þeir eru búnir að spila fleiri leiki hérna á þessum velli, þannig að þeir hljóta að hafa góða og gilda ástæðu fyrir því að leyfa leikjum að fara fram hér. Völlurinn er vinalegur, stúka og fínir klefar, ekkert vesen."

„Þetta er bara hluti af þessu, hluti af því að spila í Evrópukeppni er að fara á framandi slóðir og spila á völlum sem eru ekki alveg eins og við eigum að venjast, borða mat sem er ekki eins og við eigum að venjast og gista á hótelherbergjum sem eru kannski aðeins afturhvarf til fortíðar."

„Þetta er bara hluti af því að þroska hópinn, eitthvað sem við verðum að geta ráðið við, klárlega ekki eitthvað sem við getum stjórnað og er bara hluti af þessu."


Passað upp á að menn drekki vel
Að spila í svona hita, er plan að menn séu búnir að vökva sig virkilega vel fyrir leik? Eitthvað sem þú segir við strákana?

„Við erum með lækni, sjúkraþjálfara og styrktarþjálfara sem eru betur að sér í þessum fræðum en ég. Það er passað upp á að menn séu að drekka vel og séu með öll steinefni og sölt á hreinu. Ég geri ráð fyrir því að það verði vatnspása í þessum leik. En við verðum líka að passa okkur á því að hugsa ekki of mikið um það."

„Við æfðum klukkan fimm í dag, á leiktímanum, það var mjög heitt og sólin skein hluta af æfingunni. Auðvitað verður tempóið lægra en maður sér oft í leikjum hjá okkur, en það er bara hluti af þessu. Við pössum upp á að menn drekki vel og erum klárir með köld handklæði ef það er vatnspása. Þetta verður bara fínt,"
sagði Óskar í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma og verður í textalýsingu hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner