Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur í Inkasso-deildinni, var ánægður með 3-2 sigur liðsins á ÍR í dag. Keflvíkingar eru í góðum málum fyrir lokakaflann.
Lestu um leikinn: Keflavík 3 - 2 ÍR
Adam Árni Róbertsson kom Keflavík yfir áður en Már Viðarsson jafnaði metin áður en Renato Punyed kom ÍR-ingum yfir. Jeppe Hansen jafnaði metin á 78. mínútu áður en Leonard Sigurðsson tryggði sigurinn á 87. mínútu eftir að hafa komið inn sem varamaður.
„Frábært að ná þremur stigum hérna í dag. Ef eitthvað er karakterssigur þá er það þetta. Við áttum ekki góðan dag svona spillega séð en menn lögðu sig fram og börðust fyrir þessu og hættu ekki," sagði Laugi við Fótbolta.net.
Blaðamaður benti á það að ÍR-ingar hafa verið örlítið betri í leiknum en Laugi var ekki sammála því.
„Ég veit ekkert um það. Ég er ekkert endilega sammála um að ÍR hafi verið betra í leiknum en skipulagið þeirra gekk betur. Þeir lágu mikið til baka og vildu fara hratt á okkur og við náðum ekki nógu mörgum opnunum á þá en ég er ekki kominn svona langt í svona pælingum hvort styrkurinn sé nægur til að komast upp."
Keflavík er í góðri stöðu eins og áður segir en liðið er með 37 stig, núna fjórum meira en Þróttur sem tapaði í kvöld. Hvað þarf Keflavík að ná í mörg stig til að tryggja sæti sitt í efstu deild?
„Þú færð mig ekki í þennan leik, það er alveg klárt. Ég lofa því að strákarnir leggja sig alla fram á Akureyri og reyna að ná í þrjú stig þar," sagði hann ennfremur.
Ungu strákarnir í Keflavík hafa verið öflugir en Leonard gerði sigurmark leiksins undir lokin.
„Þar er ég sammála þér. Þeir hafa gert rosalega vel þessir strákar og Leonard kemur inn í dag með rosalega flottu hugarfari og ákveðinn í að setja mark sitt á leikinn," sagði hann í lokin.
Stöðutaflan
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | |
Athugasemdir
























