Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 24. nóvember 2021 11:06
Elvar Geir Magnússon
Heimild: DV 
„Flestir fengu sér einn til tvo bjóra og fóru svo bara að sofa"
Eiður Smári er hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Eiður Smári er hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari og yfirmaður fótboltamála hafa ekkert viljað tjá sig um þær fréttir að Eiður Smári Guðjohnsen hefur vikið frá störfum sem aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Fjölmiðlum hefur verið bent á Ómar Smárason, deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ.

DV greindi frá því að samningi Eiðs hafi verið sagt upp í kjölfar þess að áfengi var haft um hönd í síðustu landsliðsferð. Eiður hafði í sumar verið áminntur af KSÍ í tengslum við áfengisneyslu.

Þá segir DV að ónafngreindur leikmaður landsliðsins sé undir skoðun hjá KSÍ þar sem hann hafi verið í annarlegu ástandi daginn eftir leikinn gegn Norður-Makedóníu.

Ómar segir að KSÍ hafi ekki áhyggjur af áfengisneyslu kringum landsliðin, þó þetta sé í annað sinn sem landsliðsþjálfari víki frá störfum á innan við ári í kjölfar þess að áfengi sé veitt í landsliðsverkefni.

„Menn fengu sér þarna einn tvo bjóra eftir leikinn en annað var það ekki. Flestir fengu sér bara einn til tvo bjóra og fóru svo bara að sofa," sagði Ómar við DV.

Þá segir Ómar að ástæðan fyrir því að yfirlýsingin um starfslok Eiðs Smára hefði borist svona seint í gær (23:30) væri sú að stjórn KSÍ hefði fundað um málið langt fram á kvöld.
Athugasemdir
banner