
Fjölnir laut í lægra haldi er þeir fengu HK í heimsókn í Egilshöllina fyrr í dag. Leikar enduðu með 1-5 tapi Fjölnis og situr liðið nú í botnsæti Lengjudeildarinnar. Gunnar Már Guðmundsson, þjálfari Fjölnis, mætti í viðtal að leik loknum.
Lestu um leikinn: Fjölnir 1 - 5 HK
„Hundfúll að tapa leiknum og að tapa honum svona stórt. Í fyrri hálfleik fáum við tvö dauðafæri, getum kennt sjálfum okkur um. Við erum svo ofan á í leiknum þegar við fáum á okkur víti, sem ég samþykki aldrei að sé víti. Þetta er bara bull, dómarinn er vel staðsettur þegar þetta er dæmt. Ég veit ekki hvernig þeir eiga að réttlæta þetta."
„Við þetta atvik breytist mómentið í leiknum og vorum við í brasi út fyrri hálfleikinn þannig lagað. Mér fannst við gera ágætlega inn í seinni hálfleiknum, en eftir þriðja markið þá gefumst við upp."
„Hefðum við skorað úr færunum okkar hefðum við unnið þennan leik, en hvernig færi viltu fá ef þú skorar ekki úr þessum?"
Fjölnir er nú í botnsæti deildarinnar.
„Fyrir okkur er þetta einn leikur í einu og við þurfum að vinna næsta leik. Við erum búnir að koma okkur í þá stöðu að við verðum að vinna Þrótt hérna heima og svo þurfum við að fara norður og vinna, til að hafa þetta lifandi fyrir lokaumferðina."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir