mán 25. október 2021 11:30
Elvar Geir Magnússon
Líkir Solskjær við Mikka mús í Disneylandi
Cristiano Ronaldo og Ole Gunnar Solskjær.
Cristiano Ronaldo og Ole Gunnar Solskjær.
Mynd: EPA
Jonathan Wilson, fréttamaður Guardian, gagnrýnir þjálfunaraðferðir Solskjær í pistli sem hann skrifaði í morgun og segir að enginn inni á vellinum viti hvað hann eigi að gera.

Hann segir að það furðulegasta við 0-5 tapið gegn Liverpool í gær hafi verið að Liverpool hafi í raun ekki verið upp á sitt besta í leiknum.

Þá veltir hann því fyrir sér hvort Manchester United snúist í raun lengur um það að vinna leiki og titla, félagið sé meira rekið eins og það sé fyrirtæki.

„Hvað gerist næst? Í þrjú ár hefur United verið stjórnað eins og það sé skemmtigarður, meira að segja nostalgíufólk hlýtur að vera sammála því að nú sé kominn tími á nýjan stjóra. Sama hversu mikið fólk elskar Mikka mús þá býst enginn við því að hann sjái um að reka Disneyland," skrifar Wilson.

„Á þessum tímapunkti kemur í ljós hvert sanna eðli félagsins er. Snýst þetta lengur um að vinna leiki og bikara? Eða hefur viðskiptahliðin bara algjörlega tekið við?"

Þá segir Wilson að Cristiano Ronaldo sé vandamál. Hann skili nánast engu varnarlega en umræðan sé sú að hann þurfi að spila, einfaldlega vegna þess að hann sé Ronaldo.

„Hver sá sem tekur við, hvenær sem það verður, mun þurfa að vinna í vandamálinu kringum Ronaldo. Það er hægt að nota hann sem vopn til að vinna veikari andstæðinga eða fá hann inn í stórleikjum til að breyta málum. En hann á ekki að eiga öruggt sæti í leikjum gegn stórliðum," skrifar Wilson.
Athugasemdir
banner
banner
banner