
„Það er ekkert sjálfgefið að koma hingað og skora sjö og ekkert sjálfgefið heldur eftir síðasta leik. Það er frábært að við höfum spilað eins og við gerðum og klárað þetta vel," sagði Guðlaugur Victor Pálsson varnarmaður Íslands eftir 0-7 sigur á Leichtenstein ytra í undankeppni EM í kvöld.
Lestu um leikinn: Liechtenstein 0 - 7 Ísland
Það var vel ljóst á honum að 0-3 tap gegn Bosníu/Herzegóvínu í vikunni sat í honum.
„Við þurfum að læra af þessum Bosníuleik. Ég er rosalega ánægður hvernig við svöruðum í dag en við vitum alveg að Liechtenstein er ekki gott lið. Það er samt ekki sjálfsagt og sjálfgefið að koma hingað og klára þetta. Við vitum alveg að ef við hefðum ekki unnið í dag þá hefði orðið allt ennþá meira vitlaust," sagði hann.
„Bosníuleikurinn situr mjög mikið í mér, ég var hundfúll og við vorum það allir. Það var barnalegt hvernig við spiluðum, barnalegt hvernig við komum út í þann leik og vörðumst og vorum sem lið. Það er ekkert í boði! Ef þú vilt komast á stórmót er það ekki í boði og mig langar að komast á stórmót. Mig langar að gera þetta almennilega og við viljum það allir."