Þungu fargi var létt af Mauricio Pochettino, stjóra Chelsea, eftir 1-0 sigurinn á Brighton í 3. umferð enska deildabikarsins, en þetta var aðeins annar sigur tímabilsins.
Chelsea hefur verið í svipuðum gír og á síðasta tímabili. Liðið hefur verið að spila ágætlega, en það hefur ekkert gengið að koma boltanum í netið.
Það heppnaðist í kvöld. Liðið spilaði vel á móti sterku liði Brighton og er nú komið áfram í 16-liða úrslit.
„Það var ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að ná í sigurinn og að komast áfram í næstu umferð; eftir að hafa farið í gegnum nokkra leiki þar sem við hvorki unnum né skoruðum,“ sagði Pochettino.
Nicolas Jackson hefur verið kaldur í síðustu leikjum eins og aðrir sóknarmenn Chelsea, en hann komst á blað í kvöld.
„Það er mikilvægt fyrir sóknarsinnaða leikmenn að skora. Hann var rosalega góður.“
Pochettino vonast nú til þess að þetta sé vendipunktur tímabilsins.
„Þetta verður að vera vendipunkturinn. Það er löngu kominn tími til, en ég sá margt jákvætt úr leiknum. Við sáum leikmennina gefa allt sitt,“ sagði argentínski stjórinn í lokin.
Athugasemdir