fös 28. febrúar 2020 11:40
Elvar Geir Magnússon
Fyrirliðinn framlengir við Leikni
Sævar Atli fagnar marki síðasta sumar.
Sævar Atli fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Sævar Atli Magnússon hefur skrifað undir nýjan samning við Leikni í Breiðholti. Sævar er 19 ára og er uppalinn Leiknismaður .

Hann tók við fyrirliðabandi félagsins í vetur þegar Eyjólfur Tómasson markvörður lagði hanskana á hilluna.

Sævar lék einn leik með Leikni í Pepsi-deildinni 2015 og varð þá fyrsti leikmaðurinn fæddur eftir aldamótin til að spila í efstu deild.

Hann skoraði 8 mörk í 20 leikjum í 1. deildinni í fyrra en Leiknismenn voru í harðri baráttu um að komast upp í efstu deild en enduðu í þriðja sæti. Sævar skrifar undir samning út 2021.

„Þetta eru frábærar fréttir til að taka með sér inn í helgina. Sævar er elskaður af öllum í félaginu og hefur hann verið með annan fótinn í Leiknisheimilinu alla sína ævi. Frábær fótboltamaður og mikil fyrirmynd og það lá beint við að gera hann að fyrirliða þegar Eyjólfur ákvað að leggja hanskana á hilluna," segir Oscar Clausen formaður Leiknis við heimasíðu félagsins.

Leiknir mætir Aftureldingu í Lengjubikarnum í kvöld. Leikurinn er í Egilshöll og hefst klukkan 19:00.



Athugasemdir
banner
banner
banner