mán 28. nóvember 2022 15:01
Elvar Geir Magnússon
HM: Kudus tryggði Svörtu stjörnunum sigur
Kúdos á Kudus.
Kúdos á Kudus.
Mynd: Getty Images
Son Heung-min og félagar þurftu að játa sig sigraða.
Son Heung-min og félagar þurftu að játa sig sigraða.
Mynd: Getty Images
Suður-Kórea 2 - 3 Gana
0-1 Mohammed Salisu ('24 )
0-2 Mohammed Kudus ('34 )
1-2 Cho Gue-Sung ('58 )
2-2 Cho Gue-Sung ('61 )
2-3 Mohammed Kudus ('68 )

Það hefur verið banastuð í fyrstu tveimur leikjum dagsins á HM. Ganverjar voru að tryggja sér sigur á Suður-Kóreu en liðin eru með Portúgal og Úrúgvæ í H-riðli.

Gana komst yfir á 24. mínútu þegar Mohammed Salisu, varnarmaður Southampton, skoraði eftir atgang í teignum en markið kom gegn gangi leiksins.

Mohammed Kudus, 22 ára hæfileikaríkur miðjumaður Ajax, tvöfaldaði forystuna tíu mínútum síðar þegar hann skallaði fyrirgjöf Jordan Ayew í netið. Gana tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Í seinni hálfleik tók Cho Gue-Sung til sinna ráða og jafnaði leikinn með því að skora tvívegis með nokkurra mínútna millibili. Bæði mörkin komu með skalla en varnarleikur Ganverja var alls ekki til útflutnings.

Stuðið hélt áfram og Kudus skoraði annað mark sitt og þriðja mark Gana á 68. mínútu. Eftir lága fyrirgjöf ætlaði Inaki Williams að skjóta á markið en hitti ekki boltann, hann rúllaði í staðinn á Kudus sem var í dauðafæri sem hann nýtti.

Á 76. mínútu var Suður-Kórea afskaplega nálægt því að jafna leikinn á ný en Salisu bjargaði á línu frá Kim Jin-su. Þrátt fyrir nokkuð þungar sóknarlotur Kóreumanna á lokakaflanum var ekki meira skorað.

Gana, eða Svörtu stjörnurnar eins og liðið er kallað, er með þrjú stig eftir þessi úrslit en Suður-Kórea eitt.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner