Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 29. júní 2020 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hannes: Þetta var ótrúlegur tími
Fjögur ár liðin frá Evrópumótinu í Frakklandi
Icelandair
Hannes með íslenska fánann eftir leikinn gegn Austurríki á Stade de France.
Hannes með íslenska fánann eftir leikinn gegn Austurríki á Stade de France.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson fagnar eftir að hafa komið Íslandi yfir gegn Englandi.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar eftir að hafa komið Íslandi yfir gegn Englandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir að sigurinn í Nice var í höfn.
Eftir að sigurinn í Nice var í höfn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnaðarlæti eftir leikinn.
Fagnaðarlæti eftir leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðastliðinn laugardag voru fjögur ár liðin frá leiknum magnaða í Nice, þegar Ísland sló Englendinga úr leik á Evrópumótinu.

Smelltu hérna til að lesa ítarlega upprifjun um leikinn.

England náði forystunni á fjórðu mínútu þegar Wayne Rooney skoraði úr vítaspyrnu eftir að Hannes Þór Halldórsson braut af Raheem Sterling. Íslendingar gefast hins vegar aldrei upp. Ragnar Sigurðsson jafnaði eftir langt innkast tveimur mínútum síðar og skoraði Kolbeinn Sigþórsson annað markið á 18. mínútu.

Fræg er klippan af Steve McClaren í útsendingu hjá Sky Sports þegar hann talaði um það að Englendingar hefðu svarað marki Ragnars fullkomlega, en svo kemur markið frá Kolbeini.

Íslendingar spiluðu svo frábærlega eftir markið, gáfu fá færi á sér og sýndu mikla baráttu og vinnusemi. Englendingar fundu engin svör og lokatölur 2-1 fyrir Ísland.

Hannes Þór, markvörður íslenska landsliðsins, stóð sig frábærlega í leiknum eins og allir aðrir leikmenn liðsins.

„Þetta er frábær minning," segir Hannes í samtali við Fótbolta.net.

„Ég get ekki sagt að ég hafi verið handviss að við myndum koma til baka svona fljótt. Auðvitað hafði maður trú á liðinu, en þetta var versta mögulega byrjun sem við gátum átt. Maður hélt einhvern veginn að ef þeir myndu skora snemma að þá gætu þeir tekið upp á því að ganga yfir okkur," segir Hannes sem var algjörlega stórkostlegur á þessu móti. Hann segir að það hafi verið lykilatriði að svara með marki fljótt.

„Það var algjör lykill að því að komast aftur inn í þetta."

„Ég man þennan leik ansi vel, þetta var rosaleg upplifun og maður gleymir þessu ekki svo glatt. Það eru þessir hápunktar sem maður man mjög vel eftir; þegar við skorum mörkin, markið þeirra og lokaaugnablikið þegar þeir fá hornspyrnu og það verður darraðadans í teignum okkar sem verður sem betur fer ekkert úr. Það var svo flautað af og sigurvíman sem fylgdi í kjölfarið er ógleymanleg."

„Mér fannst alveg hætta á því að þeir myndu skora og jafna. Það er ekkert mál að horfa á leikinn eftir að hann er búinn og segja að þeir hafi aldrei verið nálægt þessu, en það er ekki upplifunin á meðan leiknum stendur. Við spiluðum vel og allt það, en maður er aldrei rólegur; maður veit aldrei hvenær eitthvað dettur í gegn eða hvort þeir smellhitta einhverju skoti."

„Ég man að Harry Kane átti 'volley-skot' sem hefði mjög auðveldlega getað farið aðeins lengra frá mér og verið óverjandi. Það var sem betur fer nálægt mér og fyrir vikið telst það varla sem færi. Það er stutt á milli í þessu. Þeir áttu annað skot sem sleikti slána, það líka gleymist því þeir skoruðu ekki. Sem betur fer héldum við þeim vel í skefjum, vorum ekki opnir og þeir áttu ekki mikið í þessu. Þetta var eins gott og það gat orðið á móti svona sterku liði."

Hannes segir að lykilatriði í því að vinna Englendinga hafi verið gott skipulag og trú á verkefninu. „Við vissum að við gætum unnið þá og efuðumst aldrei um það. Með góðu skipulagi og sjálfstrausti fórum við inn í leikinn með því viðhorfi að þetta væri hægt. Svo spilaðist leikurinn þannig að við vorum með hann."

Evrópumótið 2016 mun lengi lifa í minningunni og sigurinn gegn Englandi er sá stærsti í íslenskri fótboltasögu.

„Ég held að það sé ekki spurning," segir Hannes um það hvort að Evrópumótið sé það besta sem hann hefur upplifað á ferli sínum. „Það er ákveðinn hápunktur á Heimsmeistaramótinu, augljós hápunktur, en það er engin spurning að Evrópumótið sé það besta sem ég hef upplifað," segir Hannes sem varði eftirminnilega víti frá Lionel Messi á HM 2018.

„Þetta var ótrúlegur tími, bæði að upplifa stórmót í fyrsta skipti og ganga svona fáránlega vel. Síðan er þetta augnablik þegar við komumst yfir á móti Austurríki. Mér finnst það miklu skemmtilegra en Englandsleikurinn. Það er ótrúlegasta augnablik sem ég hef upplifað. Að komast áfram með þessum hætti fyrir framan tíu þúsund Íslendinga, það var ævintýri líkast. Það er ekki hægt að toppa það," segir Hannes.

Hér að neðan má sjá brot úr leikjunum gegn Austurríki og Englandi. Algerlega stórkostlegar minningar.

Sjá einnig:
Englendingarnir „stressaðir og skelfingu lostnir"



Athugasemdir
banner
banner
banner