Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 29. nóvember 2022 21:44
Ívan Guðjón Baldursson
Rashford: Mikilvægt að svara með góðri frammistöðu
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Marcus Rashford var aðalmaðurinn í 3-0 sigri Englendinga gegn Wales. Hann skoraði tvö markanna og átti stóran þátt í einu.


Fyrsta mark leiksins skoraði Rashford beint úr aukaspyrnu. Hann tók glæsilegt skot sem virtist óverjandi fyrir Danny Ward á milli stanganna.

„Þetta er frábær tilfinning. Við vorum svolítið vonsviknir eftir tapið gegn Bandaríkjunum því við gátum spilað mikið betur. Það var mikilvægt að svara með góðri frammistöðu í næsta leik, við vorum frábærir í dag en getum gert enn betur," sagði Rashford, sem var svo spurður út í aukaspyrnumarkið.

„Ég reyndi aukaspyrnu í fyrri hálfleik en var í betri stöðu í þeim síðari. Ég reyndi bara að vera rólegur og gera það sem ég er búinn að vera að gera á æfingum."

Staðan var markalaus í leikhlé þrátt fyrir yfirburði Englendinga á vellinum. En hvað sagði Gareth Southgate við ensku strákana í hálfleik?

„Hann sagði að við værum að spila vel en þyrftum að hæfa rammann með marktilraununum okkar. Við spiluðum vel í báðum hálfleikjum en nýttum færin betur eftir leikhlé."

Rashford talaði að lokum um hversu ánægður hann er með enska landsliðinu og telur framtíð þess vera skæra.

„Stundir sem þessi eru ástæðan fyrir því að ég spila fótbolta. Þetta eru stærstu og bestu stundirnar. Ég er mjög ánægður með að fara áfram í næstu umferð því ég er með háleit markmið fyrir þetta lið og ég tel okkur geta spilað enn betur en við gerðum í dag."


Athugasemdir
banner
banner