Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 29. nóvember 2022 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate: Rashford og Foden hljóðlátir í fyrri hálfleik
Mynd: EPA

Gareth Southgate var kátur eftir þægilegan þriggja marka sigur Englands gegn Wales í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins.


England endar á toppi B-riðils og mætir Senegal í gríðarlega spennandi viðureign í 16-liða úrslitunum.

„Við stjórnuðum leiknum í fyrri hálfleik en sköpuðum ekki nóg af færum, þess vegna lögðum við upp með því í leikhlé að setja meiri kraft í sóknarleikinn og spila boltanum upp með beinskeittari hætti. Það borgaði sig," sagði Southgate.

„Þegar við skoruðum þessi tvö mörk vissum við að baráttuviljinn þeirra (Wales) væri að fjara út. Þetta hefur verið erfitt mót fyrir þá."

Marcus Rashford var maður leiksins þar sem hann skoraði tvennu og átti stóran þátt í einu marki. Fyrsta mark leiksins var einkar glæsileg aukaspyrna sem Rashford skoraði úr.

„Þetta er frábært fyrir Marcus, hann er búinn að vera virkilega góður á æfingum hjá okkur og hefur hrifið allt teymið. Hann var frábær í leiknum í kvöld og óheppinn að klára ekki þrennuna. Hann býr yfir miklum gæðum og getur til dæmis skorað svona aukaspyrnumörk. Þetta var ótrúlegt skot."

Rashford var í byrjunarliði Englands í fyrsta sinn á mótinu ásamt Phil Foden. Þeir léku á köntunum en tókst ekki að skora í fyrri hálfleik.

„Mér fannst þeir báðir alltof hljóðlátir á köflum í fyrri hálfleik þannig við ákváðum að láta þá skipta um kant. Þeir brugðust frábærlega við því og ég er mjög ánægður að þeim hafi báðum tekist að skora."


Athugasemdir
banner
banner
banner