Það var tilkynnt fyrr í dag að Arnar Þór Viðarsson hefði verið rekinn úr stöðu landsliðsþjálfara Íslands. Tímapunkturinn kemur kannski á óvart þar sem undankeppnin fyrir Evrópumótið er nýhafin.
Vanda segir í samtali við Fótbolta.net að stjórn KSÍ hafi fundað um málið og þar hafi niðurstaðan verið sú að Arnar Þór væri ekki rétti maðurinn í að leiða liðið áfram.
Vanda segir í samtali við Fótbolta.net að stjórn KSÍ hafi fundað um málið og þar hafi niðurstaðan verið sú að Arnar Þór væri ekki rétti maðurinn í að leiða liðið áfram.
„Ákvörðunin var tekin á stjórnarfundi í dag eftir að við vorum að ræða landsliðsmálin í gær. Það kemur í ljós að trúin á að við séum með rétta manninn sé ekki lengur til staðar," segir Vanda.
„Þá er í rauninni ekkert annað í stöðunni en að taka þessa ákvörðun, eins erfið og hún er. Það er alltaf erfitt að taka svona ákvarðanir en það er okkar einlæg trú að til þess að eiga möguleika á að fara á stórmót - sem skiptir miklu máli fyrir íslenskan fótbolta - að þá sé þetta partur af því."
Hver var síðasti naglinn í kistuna?
„Þetta er svona þróun, en eins ánægð og við vorum með leikinn á móti Liechtenstein þá vorum við jafn óánægð með Bosníu. Mér finnst þetta meira snúast um tilfinnguna sem við erum með, að Arnar sé ekki rétti maðurinn. Við vitum um allt sem hann hefur gengið í gegnum, en þetta var niðurstaðan."
Hún segir að það hafi verið erfitt að láta Arnar vita af þessu. „Já, ég er hreinskilin með það. Þetta er eitthvað sem ég hafði ekki gert áður."
Hún segir að það hafi ekki verið rætt við leikmenn um ákvörðunina. „Þetta er ákvörðun sem stjórn tekur. Við stöndum og föllum með þessari ákvörðun. Það er trú okkar að þetta sé rétt ákvörðun, eins erfið og hún er. Við ræddum ekki við neina leikmenn. Þetta er hlutverk stjórnar, samkvæmt lögum KSÍ."
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér að ofan en þar ræðir Vanda meira um ákvörðunina sem var tekin.
Athugasemdir